Enski boltinn

Roberto Martinez fær ekki að stýra Everton í síðasta leiknum | Rekinn í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Martinez.
Roberto Martinez. Vísir/Getty
Roberto Martinez er ekki lengur knattspyrnustjóri Everton því félagið ákvað að láta hann fara í dag þegar liðið á enn eftir að spila einn leik á tímabilinu.

Everton er í tólfta sæti ensku úrvalsdeildarinnar en liðið tapaði illa í tveimur síðustu leikjum hans, fyrst 3-1 á móti Leicester City um síðustu helgi og svo 3-0 á móti Sunderland í gær.

Everton komst í undanúrslit í báðum bikarkeppnunum á þessu tímabili en tapaði báðum undanúrslitaleikjunum.

Það var heldur ekki að hjálpa Roberto Martinez að Everton-liðið tapaði 4-0 á móti nágrönnum sínum í Liverpool á dögunum.

Everton hefur aðeins unnið fimm heimaleiki á öllu tímabilinu og liðið hefur aldrei fengið jafnfá stig á Goodison Park síðan að þriggja stiga reglan var tekin upp 1981.

Roberto Martinez tók við liði Everton sumarið 2013 þegar David Moyes fór til Manchester United og þetta var því hans þriðja tímabil með liðið.

Everton náði fimmta sæti á hans fyrsta tímabili á Goodison Park en datt niður í ellefta sæti á tímabilinu í fyrra. Liðið er nú í tólfta sæti og lokaleikurinn er á móti Norwich á heimavelli á sunnudaginn.

Frank de Boer hætti sem þjálfari hollenska liðsins Ajax í dag en hann hefur verið orðaður við stjórastöðuna hjá Everton. Umboðsmaður hans segir þó að engar viðræður hafi farið fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×