Enski boltinn

West Ham setur rútu-bullurnar í ævilangt bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það rigndi öllu lauslegu yfir rútuna í gær.
Það rigndi öllu lauslegu yfir rútuna í gær. Vísir/Getty
West Ham mun ekki taka léttvægt á þeim stuðningsmönnum félagsins sem réðust á liðsrútu Manchester United fyrir leik liðanna á Upton Park í gærkvöldi.

West Ham var að kveðja Upton Park í gær þar sem félagið hefur spilað heimaleiki sína í 112 ár og liðið endaði veru sína á vellinum með því að vinna 3-2 endurkomusigur á Manchester United. Það var þó slæm framkoma stuðningsmannanna sem setti svartan blett á annars magnað kvöld á Boleyn Ground.

99 prósent stuðningsmanna West Ham höguðu sér vel og sungu ógleymanlega inn á vellinum í leikslok en lögreglu og öryggisvörðum tókst ekki að halda aftur af nokkrum ólátabelgjunum.

West Ham sendi frá sér fréttatilkynningu til enskra fjölmiðla í morgun þar sem fram kemur að umræddir stuðningsmenn verði settir í ævilangt bann en forráðamenn West Ham munu leita sökudólganna með hjálp lögreglunnar. BBC segir frá.

Það sást mikið á rútu Manchester United eftir að flöskum og öðru rigndi yfir hana og á endanum þurfti að seinka leiknum um 45 mínútur þar sem það gekk svo illa að koma rútunni í gegnum mannhafið og í skjól við leikvanginn.

Sjá einnig:Sjáðu hvernig rúta Man. Utd. leit út eftir aðkomuna að Upton Park

Leikmönum Manchester United var vissulega brugðið að þurfa að upplifa svona ástand svona rétt fyrir mikilvægan leik en hvort þessi lífsreynsla sé ein af ástæðunum fyrir tapinu verður þó aldrei sannað.

Tapið þýðir hinsvegar að Manchester United þarf að treysta á það að vinna Bournemouth í lokaumferðinni á sunnudaginn og að Manchester City tapi á móti Swansea. Öll önnur úrslit þýða að City fer í Meistaradeildina á kostnað nágranna sinna í United.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×