Fótbolti

Jóhann Berg: Aðrir með betri einstaklinga en við með besta liðið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður Charlton og íslenska landsliðsins, segir alls óvíst hvar hann spili á næstu leiktíð. Jóhann var í viðtali við Guðjón Guðmundsson í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Guðjón kíkti á Jóhann Berg í dag þar sem hann var á æfingu undir dyggri handleiðslu Ingólfs styrktarþjálfara.

„Það er stór tími framundan og það þýðir ekki að koma þangað inn í þennan stóra tíma í lélegu formi. Maður lætur aðeins pína sig þannig að maður verði í góðu formi," sagði Jóhann við Guðjón.

„Ég held að við sem Ísland þurfum að vera í besta forminu. Við erum auðvitað ekki með bestu fótboltamennina. Það eru lið þarna með betri einstaklinga, en við erum með besta liðið."

Ingólfur segir að Jóhann gæti náð meiri hraða, sérstaklega á fyrstu metrunum.

„Hann getur náð meiri hraða og léttleika. Hann er að fara út í þessa pressu sem er stórmót og það er pottþétt að hann mun verða undir meira álagi."

„Hann verður að læra að slaka á inn á milli, þannig að við keyrum allt upp og komum svo aftur niður," sagði Ingólfur.

Jóhann skoraði sex mörk og lagði upp tólf í ensku B-deildinni í vetur, en það er óvíst hvar hann spili á næstu leiktíð. Charlton féll niður í C-deildina á nýafstöðnu tímabili.

„Ég bara vill spila á eins háu leveli og hægt er. Ég er algjörlega einbeittur á EM, en svo hugsum við um allt annað eftir EM og sjáum hvað er í boði."

Allt innslagið má sjá í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×