Innlent

Barkaígræðsla sögð siðferðislegt stórslys

Sveinn Arnarsson skrifar
Tómas Þór Guðbjartsson læknir og Andamarian Beyene sumarið 2012. Barkaígræðslan er meðal annars rannsökuð af sænsku lögreglunni.
Tómas Þór Guðbjartsson læknir og Andamarian Beyene sumarið 2012. Barkaígræðslan er meðal annars rannsökuð af sænsku lögreglunni. vísir/vilhelm
Siðfræðistofnun Háskóla Íslands segir engan vafa leika á að plastbarkamálið svokallaða, þar sem Íslendingar voru bæði leikendur og gerendur, sé eitt alvarlegasta siðferðisslys í heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum. Telur stofnunin mikilvægt að rannsóknarnefnd verði sett á laggirnar til þess að rannsaka hlut Íslands í málinu.

„Það er okkar mat, eftir að hafa farið yfir málið og kynnt okkur það sem komið hefur fram, að æskilegt sé að koma upp rannsóknarnefnd hér á landi,“ segir Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Salvör Nordal
„Rannsóknir Svía nægja ekki til að varpa ljósi á íslenska hluta málsins. Slíka rannsókn verðum við að gera sjálf. Því skiptir miklu máli að við rannsökum hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis og hvað af málinu megi læra. Svíar taka málið föstum tökum og við ættum að gera slíkt hið sama.“

Elín Hirst, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði heilbrigðisráðherra að því í fyrirspurn á þingi í gær hvort honum hugnaðist að rannsaka hlut Íslands varðandi barkaígræðslu Paolos Macchiarini, læknis við Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi, á Andamarian Beyene sem lést stuttu eftir ígræðsluna.

Kristján Þór Júlíusson
Kristján Þór Júlíusson taldi eðlilegt og æskilegt að Alþingi tæki til skoðunar að skipa sérstaka rannsóknarnefnd til þess að skoða þátt íslenskra sérfræðinga í málinu. 

Fram hefur komið að barkinn hafi aldrei verið lífvænlegur og það hafi dregið sjúklinginn til dauða. Til þess að rannsóknarnefnd verði að veruleika þarf Alþingi að samþykkja þingsályktun þess efnis.

Tómas Guðbjartsson, sem tók þátt í rannsókninni á sínum tíma, vildi ekki tjá sig við Fréttablaðið þegar eftir því var leitað.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 31. maí


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×