Erlent

Göngumaður féll í hver og dó

Tuttugu og þriggja ára gamall maður lét lífið þegar hann féll ofan í hveralind í Yellowstone þjóðgarðinum í gær. Hann hafði villst af leið og farið út fyrir merkta göngustíga þegar hann féll í hverinn sem er um níutíu og þriggja gráða heitur en á svæðinu er rennur nær sjóðandi heitt vatn undir þunnum jarðvegi. 

Tilraunir til að ná líki mannsins upp úr hveralindinni báru ekki árangur. Talskona garðsins segir að starfsmönnum hafi tekist að finna einhverjar persónulegar eignir hans en að ekki sé hægt að finna líkið. Hveraldinin er mjög heit og sýrustig hennar gífurlega hátt.

Á laugardag brenndist þrettán ára drengur þegar faðir hans, sem var með hann á hestbaki, skrikaði fótur þannig að drengurinn steyptist í sjóðandi vatn. Hann lifði af en brenndist illa. Stjórnendur í garðinum biðla nú til gesta hans að halda sig innan merktra stíga enda geti svæðið verið stórhættulegt.

Minnst 22 hafa látið lífið í tengslum við hveri í þjóðgarðinum frá árinu 1890, svo vitað sé til. Að mestu er um slys að ræða en minnst tveir eru sagðir hafa reynt að synda í hver.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×