Fótbolti

Þjálfari Portúgals: Ísland getur ekki breyst á einni nóttu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fernando Santos á æfingu portúgalska liðsins.
Fernando Santos á æfingu portúgalska liðsins. vísir/afp
„Við erum að fara að mæta mjög skipulögðu liði Íslands sem er með frábæran þjálfara sem veit nákvæmlega hvað hann vill. Íslenska liðið var næstum komið á HM en er nú komi á EM. Þetta er ákveðið lið.“

Þetta sagði Fernando Santos, þjálfari Portúgals, á blaðamannafundi í Saint-Étienne í dag en Santos og lærisveinar hans mæta strákunum okkar í fyrsta leik liðanna í F-riðli EM 2016 annað kvöld.

Santos er búinn að leikgreina íslenska liðið ítarlega. Í raun er hann búinn að liggja yfir leikjum með strákunum okkar. Hann sagðist bera miklu virðingu fyrir Íslandi.

„Íslensku leikmennirnir eru allir góðir. Þeir eru ákveðnir og vita hvað þeir vilja. Ég er búinn að sjá tíu leiki með íslenska liðinu og veit að það er með rosalega öfluga og einbeitta leikmenn,“ sagði Santos.

„Íslenska liðið er mjög sterkt og hefur sterka einstaklinga líka. Sumt sem liðið gerir er betra en annað en ég ætla ekki að gefa það út hér hvað það er.“

Santos býst ekki við neinu rosalega óvæntu frá Lars og Heimi á morgun þegar liðin mætast en sagði að þjálfarar reyna alltaf að koma hvor öðrum eitthvað á óvart.

„Stundum sýnir maður öll spilin en stundum heldur maður ásnum í erminni. Íslenska liðið hefur verið sögulega gott undanfarið og spilað ótrúlega vel síðustu fjögur ár,“ sagði Santos.

„Ísland getur ekki breyst yfir nóttu. Það er komið á stórmót með því að spila á ákveðinn hátt. Við þurfum að passa okkur á Íslandi. Þjálfararnir geta alltaf komið með eitthvað nýtt og því þurfum við að vera klárir í allt,“ sagði Fernando Santos.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir

Aron Einar: Tilfinningin ólýsanleg

"Þetta er bara ólýsanlegt,“ sagði fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson á blaðamannafundi íslenska liðsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×