Innlent

Mannréttindadómstóll Evrópu krefur stjórnvöld svara vegna Al Thani

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson og Ólafur Ólafsson hlutu allir þunga dóma. Dómarnir eru þeir þyngstu sem fallið hafa í efnahagsbrotamáli hér á landi.
Sigurður Einarsson, Hreiðar Már Sigurðsson, Magnús Guðmundsson og Ólafur Ólafsson hlutu allir þunga dóma. Dómarnir eru þeir þyngstu sem fallið hafa í efnahagsbrotamáli hér á landi.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur krafið íslensk stjórnvöld svara vegna málsmeðferðarinnar í Al Thani málinu svokallaða. Dómstóllinn mun ekki taka afstöðu til þess hvort málið verði tekið til efnislegrar meðferðar fyrr en svörin hafa borist.

Bréfið var sent innanríkisráðuneytinu hinn 20. júní síðastliðinn og fá stjórnvöld frest til 10. október til þess að svara fjórum spurningum.

Þeir Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson voru allir dæmdir í Hæstarétti í febrúar í fyrra fyrir hlutdeild þeirra í Al Thani málinu, en þeir voru sakfelldir fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun. RÚV greindi fyrst frá.

Eftir að dómur féll í Hæstarétti sendu fjórmenningarnir inn kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem þeir töldu að brotið hefði verið á réttindum þeirra, bæði við rannsókn málsins og við meðferð þess fyrir dómstólum. Þannig hefði þeir ekki fengið að undirbúa vörn sína nægilega vel, ekki fengið tækifæri til að boða lykilvitni í skýrslutöku og að brotið hefði verið á friðhelgi einkalífsins.

Sjá einnig:Þungir dómar yfir Kaupþingsmönnum

Dómstóllinn hefur nú tekið kæru þeirra til meðferðar og hefur bæði óskað eftir svörum frá íslenskum stjórnvöldum, boðið þeim að senda yfirlýsingu vegna málsins, ásamt því sem íslenskum stjórnvöldum hefur verið boðið að ná sáttum.

Spurt um hæfi dómara

Dómstóllinn vill meðal annars fá upplýsingar um hæfi Árna Kolbeinssonar, sem er einn þeirra dómara sem dæmdu í málinu í Hæstarétti. Sonur hans, Kolbeinn Árnason, gegndi starfi forstöðumanns lögfræðisviðs slitastjórnar Kaupþings, og telja fjórmenningarnir að hann hafi haft hagsmuna að gæta sem slíkur.

Í öðru lagi er spurt hvort brotið hafi verið á réttindum kærenda til réttlátrar málsmeðferðar í ljósi þess að beiðni þeirra um að leiða ákveðin vitni í málinu fyrir dóm; þá Al Thani og Sheikh Sultan, hafi verið hafnað.

Í þriðja lagi er spurt um réttláta málsmeðferð og þá meginreglu um andmælarétt, jafnræði málsaðila í sakamálaréttarfari og það hvort kærendum hafi verið veittur nægur tími til undirbúnings málsvarnar sinnar. Jafnframt er spurt hvort sakborningar hafi fengið aðgang að öllum gögnum málsins frá embætti sérstaks saksóknara og ef ekki, hvort nauðsynlegt hafi verið að takmarka aðgang þeirra að gögnum vegna almannahagsmuna.

Í fjórða og síðasta lagi er spurt um símtöl milli sakborninga og lögmanna og hvort það hafi raskað friðhelgi einkalífs fjórmenninganna, sem og hvort sú röskun hafi verið lögleg.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×