Gylfi bendir í Facebook-færslu í gærmorgun á að ákvörðun kjararáðs komi um viku eftir lög Alþingis á flugumferðarstjóra sem hafi verið með væntingar um „leiðréttingu“ sinna kjara.

„Það verður ekki þannig að þeir tekjuhæstu í þessu samfélagi fái einhverja sérstaka meðferð. Við ætlumst til þess að þessir aðilar deili kjörum með almenningi í þessu landi. Ef ekki þá munum við deila kjörum með þeim.“
Gylfi segir líklegt að fleiri ákvarðana sé að vænta frá kjararáði, enda laun ráðuneytisstjóra orðin allnokkru hærri en laun ráðherra. Sérstök breyting kjararáðs á kjörum ráðuneytisstjóra tekur gildi um næstu mánaðamót. Þá hækka laun þeirra um 22,3 til 23,3 prósent til viðbótar við hækkunina sem allir sem undir kjararáð heyra fengu um síðustu mánaðamót, en um 31 til 32 prósent sé miðað við laun þeirra fyrir þann tíma.
„Þessi úrskurður kemur í kjölfar ákvörðunar þessa sama ráðs varðandi dómara í desember síðastliðnum, en þeir hafa verið færðir nærri tveimur milljónum króna á mánuði.“ Gylfi segist þá hafa bent á að svona ákvarðana kynni að vera að vænta á komandi mánuðum. Búast megi við fyrir 1. ágúst að laun forseta Íslands verði hækkuð og verði gengið til kosninga í haust muni þingmenn og ráðherrar fá svipaða „leiðréttingu“ launa.

Í greinargerð kjararáðs með ákvörðun um launahækkun ráðuneytisstjóra er vísað til upplýsinga frá ráðuneytunum um að skipulag þeirra hafi breyst og þau séu stærri og öflugri en áður með flóknari verkefni. Mat ráðuneytisstjóranna sé að laun þeirra eigi að vera sambærileg launum hæstaréttardómara. Samkvæmt niðurstöðunni eru laun ráðuneytisstjóra rétt undir launum hæstaréttardómara, sem eru nú rúmlega 1,8 milljónir króna á mánuði.
Launahækkanir kjararáðs hafa víða sætt gagnrýni. Í tilkynningu BSRB er ákvörðun kjararáðs um að hækka laun ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra „langt umfram almennt launafólk“ til dæmis gagnrýnd harðlega. „Í rökstuðningi kjararáðs er talað um að verið sé að leiðrétta laun vegna aukins álags, en sömu rök má nota fyrir aðra stærri hópa sem einnig búa við aukið álag.“
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júlí 2016

Bjarni Benediktsson sagði á fundi Samtaka iðnaðarins í gærmorgun að breyta þyrfti starfsemi kjararáðs.
Þannig vill hann að þeim sem undir kjararáð heyri fækki um nokkur hundruð þannig að eftir sæti einungis þröngur hópur, til dæmis ráðherrar og þingmenn. – jhh