Enski boltinn

Þeir eru örugglega með kökupartý í Leicester í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. Vísir/Samsett mynd
13. júlí er góður dagur fyrir Leicester City og ætti í raun að öllu eðlilegu að vera hátíðardagur í borginni. Það var nefnilega á þessum degi fyrir ári síðan sem félagið gekk frá samningi við ítalska knattspyrnustjórann Claudio Ranieri.

Ranieri tók við liði sem var að hefja sitt annað tímabil í ensku úrvalsdeildinni og hafði verið í neðsta sæti deildarinnar stærsta hluta tímabilsins á undan.

Það hefði verið stórfrétt hefði Ranieri tekist að halda Leicester í toppbaráttunni allt tímabilið eða þá að koma liðinu í Meistaradeildina. Hann gerði hinsvegar enn betur og undir hans stjórn vann Leicester City enska meistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Það kom mörgum á óvart að Leicester City veðjaði á Claudio Ranieri fyrir ári síðan enda var hann útbrunninn í augum flestra eftir ófarir sínar með gríska landsliðinu sem tapaði meðal annars fyrir Færeyjum undir hans stjórn.

Ranieri gat vissulega byggt ofan á starf Nigel Pearson sem hafði komið Leicester-liðinu upp og tekist að bjarga því frá falli með frábærum endaspretti þá um vorið. Pearson var hinsvegar óvænt rekinn eftir samstarfserfiðleika við eigendurna.

Hinn 64 ára gamli Ítali, sem hafi kynnst deildinni sem stjóri Chelsea á árunum 2000 til 2004, mætti með góða skapið og alla sína reynslu á King Power Stadium og stýrði einu mesta ævintýri í sögu fótboltans.

Leicester City vann ekki ensku deildina á einhverri heppni. Liðið var í forystu nær allt tímabilið og vann á endanum með 10 stiga mun. Leicester City fékk fimmtán stigum meira en Manchester-liðin, 21 stigi meira en Liverpool og 31 stigi meira en fráfarandi Englandsmeistarar Chelsea.

Það skiptir ekki öllu hvort Claudio Ranieri takist að fylgja þessu eftir á komandi tímabil því hann mun alla tíð verða goðsögn með stuðningsmenna Leicester City. Honum tókst eitthvað sem enginn sá fyrir og mjög líklega enginn getur leikið eftir. Það kemur örugglega bara eitt svona ævintýri á hverri öld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×