Enski boltinn

Kemur nýr markvörður Liverpool úr óvæntri átt?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alex Manninger kvaddi stuðningsmenn Augsburg í vor.
Alex Manninger kvaddi stuðningsmenn Augsburg í vor. Vísir/Getty
Alex Manninger, fyrrum markvörður Arsenal, gæti orðið nýr markvörður hjá Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Liverpool Echo segir frá því að austurríski markvörðurinn æfi nú með Liverpool-liðinu í von um að fá samning.

Manninger er ekkert með neitt í höndunum enn en reynir að sanna sig fyrir Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.

Liverpool er þegar búið að kaupa einn markvörð í sumar en enska félagið borgaði Mainz 05 4,7 milljónir punda fyrir Loris Karius. Karius hefur þegar fengið markmannstreyju númer eitt en mun berjast  við Simon Mignolet um markmannsstöðuna.  Það er því kannski ekki líklegt að Liverpool semji við Manninger.

Manninger er orðinn 39 ára gamall og hefur verið hjá þýska liðinu FC Augsburg undanfarin fjögur tímabil en þar áður var hann hjá ítölsku liðunum Siena, Udinese og Juventus.

Alex Manninger lék með Arsenal á árunum 1997 til 2002 og varð enskur meistari með liðinu. Manninger var þó ekki aðalmarkvörður Arsenal því á þessum árum stóð David Seaman á milli stanganna á Highbury.

Alex Manninger lék alls 39 leiki með Arsenal á sínum tíma og fékk á sig 37 mörk. Hann hélt 18 sinnum markinu hreinu þar á meðal sex sinnum í sjö leikjum á meistaratímabilinu 1997-98.

Alex Manninger komst ekki í austurríska landsliðshópinn á EM í Frakklandi en hann spilaði sinn 33. og síðasta landsleik árið 2009.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×