Enski boltinn

Pierre-Emile Höjbjerg samdi við Dýrlingana til fimm ára

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Pierre-Emile Höjbjerg er kominn til Southampton.
Pierre-Emile Höjbjerg er kominn til Southampton. vísir/getty
Enska úrvalsdeildarliðið Southampton er búið að ganga frá kaupum á danska landsliðsmanninum Pierre-Emile Höjbjerg frá Bayern München. Hann er búinn að gera fimm ára samning við Dýrlingana.

Southampton er sagt borga 12,8 milljónir punda fyrir leikmanninn sem var á láni hjá Schalke á síðustu leiktíð.

Hann sá líklega sæng sína uppreidda hjá Bayern eftir komu Portúgalans Renato Sanches sem var kjörinn besti ungi leikmaður EM.

Höjbjerg verður 21 árs gamall í ágúst. Hann er fæddur í Kaupmannahöfn og spilaði fyrir yngri landslið FC Kaupmannahafnar og Bröndby. Hann gekk í raðir Bayern 2012 en var lánaður til Augsburg 2015 og Schalke á síðasta tímabili.

Daninn er annar leikmaðurinn sem kemur til Southampton á eftir Nathan Redmond sem kom frá Norwich.

Southampton er búið að missa Graziano Pellé, Sadio Mané og Victor Wanyama á síðustu dögum auk Juanmi og Marten Stekelnburg sem fór til Everton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×