Enski boltinn

Southampton missir landsliðsframherja til Kína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Graziano Pelle í leik með Ítölum á EM.
Graziano Pelle í leik með Ítölum á EM. Vísir/Getty
Ítalski landsliðsframherjinn Graziano Pelle mun ekki spila áfram í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann hefur verið undanfarin tvö tímabil.

Southampton seldi í dag hinn þrítuga Graziano Pelle til kínverska félagsins Shandong Luneng fyrir tólf milljónir punda eða 1,5 millharð íslenskra krína.

Southampton græddi fjórar milljónir punda, 492 milljónir íslenskra króna, því félagið keypti Graziano Pelle frá Parma fyrir átta milljónir punda í júlí 2014.

Southampton heldur því áfram að selja sína bestu menn en fyrr í sumar hafði Victor Wanyama farið til Tottenham og Sadio Mane til Liverpool.

Graziano Pelle skoraði tvö mörk fyrir Ítali á leiðinni í átta liða úrslitin á EM í Frakklandi en klikkaði svo á víti í vítakeppninni á móti Þýskalandi.

Pelle skoraði alls 23 mörk í ensku úrvalsdeildinni, tólf mörk 2014-15 og ellefu mörk 2015-16.

Graziano Pelle er annar framherjinn sem þetta kínverska félag fær frá ensku liðið því áður hafði félagið borgað Newcastle United 2,5 milljónir punda fyrir Papiss Cissé.

Þeir Graziano Pelle og Papiss Cissé munu því skipa framlínu liðsins en knattspyrnustjórinn er Þjóðverjinn Felix Magath.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×