Franski fótboltamaðurinn Paul Pogba er enn leikmaður Juventus þrátt fyrir endalausar fréttir enskra og franskra miðla um að ítalska félagið sé búið að samþykkja 100 milljóna punda tilboð í miðjumanninn.
Nú segir spænska útvarpsstöðin Cadena Ser að Pogba vilji ekki fara til Manchester United heldur vill hann komast til Evrópumeistara Real Madrid.
Mino Raiola, umboðsmaður kappans, er aftur á móti ekki hrifinn af þeirri hugmynd, samkvæmt spænsku fréttunum, og vill klára samninginn við Manchester United.
Alls óvíst er hvort Real Madrid vilji blanda sér í baráttuna um Pogba en fréttir frá Spáni hafa verið á þá leið að hvorki Real né Barcelona vilji borga svona mikið fyrir leikmanninn og eru búin að gefast upp í baráttunni um hann.
Manchester United er líka tilbúið að borga Frakkanum þrettán milljónir evra í laun á ári sem spænsku risarnir hafa ekki áhuga á að gera.
Þessi félagaskiptasaga verður alltaf furðulegri því í morgun hélt enska blaðið The Guardian því fram að United væri búið að leggja inn nýtt 92 milljóna punda tilboð í Pogba sem er þvert á fréttir síðustu viku um að Juventus væri búið að samþykkja 100 milljóna punda tilboð.
Nítján dagar eru þar til enska úrvalsdeildin hefst og á José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, enn þá eftir að landa fjórða leikmanninum sem hann talaði um á fyrsta blaðamannafundinum sem stjóri United.
