Innlent

Skotárásin í Breiðholti: Búið að handtaka hinn manninn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi árásarinnar á föstudagskvöld.
Frá vettvangi árásarinnar á föstudagskvöld. vísir/jkj
Maðurinn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur leitað að í tengslum við rannsókn hennar á skotárás í Breiðholti á föstudagskvöld var handtekinn í morgun.

Er hann annar tveggja manna sem grunaðir eru um aðild að skotárásinni en hinn var handtekinn aðfaranótt laugardags. Var sá maður í framhaldinu úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald.

Maðurinn sem var handtekinn í dag hefur verið færður til yfirheyrslu en ákvörðun um gæsluvarðhaldskröfu yfir honum hefur ekki verið tekin, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Verður hún tekin síðar í dag þegar búið er að yfirheyra manninn.

Í samtali við fréttastofu fyrr í morgun sagði Friðrik Smári Björgvinsson yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar að rannsókn málsins væri í fullum gangi.

Skotárásin átti sér stað seint á föstudagskvöldið við Iðufell í Breiðholti. Mikil slagsmál höfðu brotist út og í kjölfarið var skotið úr haglabyssu í átt að rauðum Yaris. Sérsveit ríkislögreglustjóra var send á staðinn og lokaði svæðinu af.

Voru maður og kona handtekin í tengslum við málið en konunni var sleppt en maðurinn úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald eins og áður segir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×