Skoðun

Lækkun fasteignagjalda dugar Hörpu ekki til tapleysis

Örnólfur Hall skrifar
Í ársreikningi Hörpu fyrir árið 2015 kemur fram að tap ársins er tæpar 443 milljónir króna. Er þá tekið tillit til lækkunar fasteignagjalda ársins 2015 upp á 242 milljónir vegna dóms Hæstaréttar frá febrúar 2015. Hefði ekki komið til lækkunar fasteignagjalda hefði tap Hörpu orðið rúmar 684 milljónir sem er verri niðurstaða en vegna 2014. Rekstur Hörpu er því ekki að færast nær því að vera sjálfbær.

Margar útgáfur virðast vera á kreiki varðandi byggingarkostnað Hörpu. Samkvæmt ársreikningi Hörpu fyrir árið 2015 er hann sagður 17,9 milljarðar án áhalda, tækja og innréttinga. Sé tekið tillit til áhalda, tækja og innréttinga er byggingarkostnaður rúmir 21,4 milljarðar króna. Í nýlegri fyrirspurn frá alþingismanni til fjármála- og efnahagsráðherra um byggingarkostnað Hörpu, svaraði ráðherra að frá því ríkið og Reykjavíkurborg hefðu tekið yfir framkvæmdina væri byggingarkostnaður samtals 20,9 milljarðar miðað við verðlag í mars 2015. Ef tekið væri tillit til afskrifaðs byggingarkostnaðar fyrri framkvæmdaraðila upp á 10 milljarða, þá væri heildarbyggingarkostnaður alls 30,9 milljarðar.

Fróðlegt er að skoða frétt í Morgun­blaðinu 1.7. 2010 um Hörpu. Þar sagði einn aðalforsvarsmaður Hörpu um byggingarkostnað hennar: „Heildarbyggingarkostnaður nemur um 28 milljörðum en ekki 17,7 milljörðum.“

Vert er að minna á að enn er fyrirspurn Péturs H. Blöndal, heitins, ósvarað á Alþingi. Þ.e.a.s. hver er óupplýstur kostnaður vegna Hörpu og upplýsingar sem vantar um rekstur og rekstraráætlanir frá A-Ö?

Ennfremur skal minnt á ofurviðhaldið á húsinu, alls um 161 milljón á aðeins 5 árum (sjá Fjárlög og svör til Fjárlaganefndar).

Hvar eru allar stórráðstefnurnar (5-6 þúsund manns) sem virðast allar hafa brugðist, en þær áttu að gera Hörpu sjálfbæra í síðasta lagi 2014?




Skoðun

Sjá meira


×