Skoðun

Hægjum á okkur, byrjum smátt

Aðalheiður Snæbjarnardóttir skrifar
Við sem þjóðfélag viljum yfirleitt fá allt hratt, með lítilli fyrirhöfn og eins ódýrt og hægt er. Á sama tíma er sífellt verið að vekja athygli á virðiskeðju framleiðenda og hvernig hlutirnir verða til. Hver ber raunverulega kostnaðinn af ódýra dótinu? Það er verkafólkið, bæði börn og fullorðnir, sem starfar við óviðunandi aðstæður í verksmiðjum þar sem ekki er fylgst með öryggismálum eða aðbúnaði starfsfólks og launum haldið í lágmarki. Hönnuðir sem tapa hugverki sínu þegar framleiðendur í löndum sem virða ekki höfundarrétt herma eftir vinsælum vörum. Náttúran þegar verið er að framleiða sem mest á skömmum tíma með litlum tilkostnaði.

Það er auðvelt að predika um þessa hluti en það hafa ekki allir efni á því að kaupa eingöngu samfélagslega ábyrgar vörur inn á heimili sitt. Þær eru yfirleitt dýrari en staðkvæmdarvörur frá óábyrgum framleiðendum, það getur verið flóknara að nálgast þær, það getur verið tímafrekt að afla sér upplýsinga um framleiðendur og svo má lengi telja.

Hættum að vera með allt eða ekkert viðhorf gagnvart vandanum og gerum bara okkar besta. Byrjum á litlum breytingum hjá okkur sjálfum, kaupum það sem við vitum hvernig var framleitt þegar við getum, reynum að nota það sem við eigum lengur og söfnum fyrir því sem á að endast lengi.

Verum meðvituð þegar við erum úti í búð, horfum ekki bara á verðmiðann heldur einnig á innihaldið og framleiðslulandið. Fræðum okkur og lærum að þekkja grænþvott þegar við sjáum hann. Leitum að framleiðendum sem gefa út skýrslur árlega sem styðjast við GRI, Global Compact eða ISO 26000, það eru allt viðurkennd viðmið til að greina frá samfélagsábyrgð fyrirtækja. Kaupum af litlu framleiðendunum sem gera allt sjálfir og geta sýnt fram á það. Þegar vottunarstimplar framleiðenda virðast heimatilbúnir af þeim sjálfum, athugum þá hvort þeir séu það. Það þarf ekki að vera sérfræðingur til þess, stutt leit á internetinu kastar ljósi á hvort það sé innihald á bak við stimpilinn.

Við breytum ekki heiminum á einum degi en verum meðvitaðir neytendur, byrjum á litlu hlutunum og látum ekki mata okkur.




Skoðun

Sjá meira


×