Skoðun

Hættum að rukka veikt fólk

Eva H. Baldursdóttir skrifar
Lengi vel stóð ég í þeim skilningi að við byggjum við nánast gjaldfrjálsa heilbrigðisþjónustu. Ríkt hefur sameiginlegur skilningur um að landsmenn skuli fá góða heilbrigðisþjónustu, óháð stétt eða stöðu. Þetta er eitt af grundvallaratriðum velferðarsamfélagsins.

Þetta er hins vegar ekki raunin. Kostnaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu hefur á síðustu þremur áratugum nær tvöfaldast samkvæmt úttekt ASÍ. Heimilin í dag standa undir nær 20 prósentum af öllum heilbrigðisútgjöldum eða um ríflega 30 milljarða á ári. Það er ekki ókeypis að vera veikur á Íslandi ef þú borgar 20 prósent af reikningnum. Um langt skeið hafa okkur borist sögur af fólki sem hefur fjárhagsáhyggjur á sama tíma og það stendur í alvarlegum veikindum vegna þess mikla kostnaðar sem þarf að standa undir vegna læknisheimsókna og lyfja. Þá er ljóst að það að glíma við geðræn vandamál getur verið mjög dýrt og tannlæknaþjónusta fullorðinna stendur að mestu utan við þetta kerfi. Þetta er að mínu viti óboðleg staða og á vettvangi stjórnmálanna á að kappkosta að laga þessa stöðu.

Meðalráðstöfunartekjur fólks í landinu eru undir 350 þúsund krónum á mánuði, gróflega áætlað út frá tölum Hagstofunnar. Þegar horft er til allra útgjaldaliða meðalheimilis, eins og húsnæðis, matar, frístunda barna o.s.frv. blasir við að venjuleg heimili í landinu ráða ekki við alvarleg veikindi.

Það þarf að lyfta hulunni af þeim misskilningi að við búum við almennilegt velferðarsamfélag, sem hlúi að okkur þegar við þurfum mest á því að halda. Staðan er sú að alvarleg veikindi á meðalheimili á Íslandi, valda því ekki aðeins tilfinningalegum erfiðleikum heldur oft á tíðum alvarlegum fjárhagsáhyggjum.

Það á að vera verkefni næstu ára að ráðast í að draga úr kostnaðarþátttöku heimilanna vegna heilbrigðisþjónustu. Eitt af forgangsverkefnum á vettvangi stjórnmálanna er að taka þetta mál föstum tökum sem og byggja nýjan spítala. Við eigum að fjármagna heilbrigðisþjónustuna með hlutum eins og hærra auðlindagjaldi og aukinni skattlagningu á fjármagn. Maður á ekki að þurfa að vera ríkur eða þurfa að spara fyrir því að vera veikur. Krafan um jöfn tækifæri óháð efnahag þarf á þessu sviði að vera hvað háværust.




Skoðun

Sjá meira


×