Skoðun

Hvað er svona erfitt?

Oddný G Harðardóttir skrifar
Í fjölmennustu mótmælum sögunnar á Íslandi kallaði þjóðin á kosningar strax. Þetta gerðist í mars á þessu ári. Ríkisstjórnin var sett á skilorð eftir Panama-skjölin og fordæmalausa pólitíska kreppu. Það var átakanlegt að horfa upp á vandræðaganginn í kjölfarið en svo fór að ný ríkisstjórn bjó sér til frest fram á haust til að klára nokkur brýn mál.

Sigurður Ingi, þá nýr forsætisráðherra, lofaði kosningum í haust og á það treysti almenningur. Bjarni Benediktsson lofaði hinu sama í beinni útsendingu á tröppum Alþingishússins.

Nú tæpum fimm mánuðum seinna er ekki enn ljóst hvenær verður kosið. Sú staðreynd er alls ekki til þess fallin að auka traust kjósenda á ríkisstjórninni eða forsætisráðherra.

Því er eðlilegt að spurt sé hvers vegna það er þeim svo erfitt að dagsetja kosningar, eyða óvissu og staðfesta við fólkið í landinu að standa eigi við gefið loforð. Það getur ekki verið svo flókið að nefna kjördaginn eða svara því hvort kosningarnar verði 22. október eða 29. október.

Er vandinn kannski frekar sá að þau geti ekki sjálf komið sér saman um kjördag eða hvaða mál eigi að vinna á stuttu sumarþingi? Bið þjóðarinnar eftir kjördegi er orðin of löng og hún er glöggt merki um að ringulreið og stefnuleysi hrjáir stjórnarsamstarfið á síðustu starfsdögunum.




Skoðun

Sjá meira


×