Erlent

Løkke vill hækka eftirlaunaaldur og bylta námsstyrkjakerfinu

Atli Ísleifsson skrifar
Lars Løkke Rasmussen segir að með 2025-áætluninni sé ætlunin að gera Danmörk sterkara.
Lars Løkke Rasmussen segir að með 2025-áætluninni sé ætlunin að gera Danmörk sterkara. Vísir/AFP
Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, vill hækka eftirlaunaaldur Dana í skrefum og breyta námsstyrkjakerfi stjórnvalda á þann veg að helmingur SU-styrksins svokallaða verði lán.

Forsætisráðherrann kynnti sérstaka 2025-áætlun dönsku ríkisstjórnarinnar í morgun þar sem hann greindi frá hvaða breytingar ríkisstjórn hans vilji sjá á hinum ýmsu sviðum.

Eftirlaunaaldur hækkar

Í frétt DR kemur fram að eftirlaunaaldur muni á næstu árum hækka í skrefum á þann veg að launþegar fæddir á árunum 1958 til 1962 fari á eftirlaun 67,5 ára, og þeir sem fæddir eru 1963 eða síðar 68,5 ára.

Með þessu sé ætlun ríkisstjórnarinnar að bregðast við hækkandi meðalaldri og fyrirsjáanlegum skorti á vinnuafli, verði ekkert að gert.

Námsstyrkjakerfinu umbylt

Løkke leggur jafnframt til að námsstyrkjakerfi danskra yfirvalda, SU-kerfið svokallaða, verði umbylt á þann veg að helmingur upphæðarinnar verði styrkur og hinn helmingurinn vaxtalaust lán.

Í frétt DR er haft eftir forsætisráðherranum að þetta sé gert til að stemma stigu við þann fjölda erlendra ríkisborgara sem sæki í styrkjakerfið.

Verði breytingarnar að veruleika munu þær gilda fyrir námsmenn sem hefja framhaldsnám frá árinu 2019.

Gera Danmörk sterkara

Løkke segir að með 2025-áætluninni sé ætlunin að gera Danmörk sterkara. Í áætluninni er einnig meðal annars tekið á málefnum flóttafólks og vill forsætisráðherrann að mögulegt verði að vísa hælisleitendum frá landinu strax á landamærunum.

Ekki verði tekið við frekari „kvótaflóttamönnum“ á þessu ári og er ætlunin að leggja aukna áherslu á aðstoð við flóttamenn á svæðum næst Evrópu, þar sem flóttafólk reynir að komast til álfunnar.

Fylgjast má með frekari fréttum af 2025-áætluninni á vef danska ríkisútvarpsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×