Ulrik Wilbek er hættur sem íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins í kjölfar umfjöllunar danskra fjölmiðla um málefni karlalandsliðsins í handbolta.
Danir urðu á dögunum Ólympíumeistarar en þjálfari liðsins er Guðmundur Guðmundsson. Wilbek mun samkvæmt dönskum fjölmiðlunum BT og TV2 fundað með leikmönnum, án Guðmundar, um þann möguleika að reka Guðmund úr starfi.
Sjá einnig: TV2 í Danmörku: Leikmenn björguðu starfi Guðmundar í Ríó
„Það var reynsla mín á Ólympíuleikunum að þjálfarar, leikmenn og starfsmenn unnu saman á uppbyggilegan hátt. En ófriður síðustu daga hefur gert það að verkum að það er ómögulegt fyrir mig að halda áfram,“ sagði Wilbek í fréttatilkynningu.
„Það mikilvægasta fyrir mig hefur alltaf verið danskur handbolti og ég vil ekki taka athyglina frá danska landsliðinu. Ég vil gefa Guðmundi bestu mögulegu aðstæður til að sinna sínu starfi.“
Sjá einnig: Valdabarátta í danska landsliðinu: Spurði hvort ætti að reka Guðmund daginn eftir úrslitaleikinn
Wilbek var áður þjálfari bæði karla- og kvennalandsliðsins í Danmörku með góðum árangri og tók svo við stöðu íþróttastjóra fyrir fjórum árum síðan.
Hann hefur áður verið borgarstjórnarefni Venstre-flokksins í Viborg og hefur í hyggju að bjóða sig aftur fram á næsta ári.
