Innlent

Mótmæla að neyðarástand ríki í leiksskólunum

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Borgaryfirvöld segjast ekki ætla að taka til baka 670 milljóna króna hagræðingarkröfu á Skóla- og frístundasvið.
Borgaryfirvöld segjast ekki ætla að taka til baka 670 milljóna króna hagræðingarkröfu á Skóla- og frístundasvið. vísir/eyþór
Á borgarstjórnarfundi í fyrradag komu Framsókn og flugvallarvinir með þá tillögu að neyðar­hópur yrði skipaður um vanda leikskóla í borginni og skilaði niðurstöðum í lok september.

Meirihlutinn vísaði tillögunni frá og Sjálfstæðisflokkur sat hjá enda vilja borgarfulltrúar hans beina sjónum að öllum skólastigum, sem séu fjársvelt.

Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundasviðs
Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs, segir enga ástæðu til að setja það góða starf sem unnið er á leikskólum í samhengi við neyðarástand. Það sé nú forgangsverkefni meirihlutans að bæta rekstrarskilyrði leikskólanna eftir tímabil aðhalds og sparnaðar. Tillögur hafi verið í mótun undanfarnar vikur og verði kynntar og settar í framkvæmd strax í þessum mánuði.

„Við ætlum að snúa vörn í sókn,“ segir Skúli. 670 milljóna króna hagræðingarkrafa á Skóla- og frístundasvið verði þó ekki tekin til baka. „Við horfum fram á veginn. Við teljum að þær aðgerðir sem voru gerðar hafi verið skynsamlegar til að færa fjármagnið til. Sú ákvörðun byggði á þverpólitískri vinnu starfshópa.“

Skúli segir hluta af tillögunum koma til framkvæmda strax, annar hluti um áramót og sá þriðji fari í fjárhagsáætlun næsta árs. Hann vill ekki fara nánar út í hvaða breytingar verði gerðar en jánkar því að auðvitað snúist þetta um peninga og að sjónum verði beint að bættu starfsumhverfi og nýliðun í starfsstéttinni. „Við erum búin að ná þannig utan um reksturinn með hagræðingu síðustu ár að við getum farið að bæta aftur í,“ segir hann.

Leikskólar taka á sig 79,3 milljóna króna niðurskurð og grunnskólar 183,1 milljón af 670 milljóna króna hagræðingarkröfu á Skóla- og frístundasvið borgarinnar. Hins vegar þurfa leik- og grunnskólar einnig að taka með sér halla ársins yfir á nýtt ár en fjölmargir skólar glíma við halla í kjölfar niðurskurðar síðustu árin. 

Þar að auki hækkuðu laun starfsstétta á sviðinu á árinu án þess að því væri mætt með auknu fjármagni. Það þýðir að minna fjármagn fer í aðra kostnaðarliði, svo sem mat, viðhald og annan rekstur. Öll þessi atriði hafa þrengt verulega að leik- og grunnskólum í borginni. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×