Erlent

Íslensk kona dæmd fyrir aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli í Englandi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hluti peninganna sem var gerður upptækur í málinu.
Hluti peninganna sem var gerður upptækur í málinu. mynd/af vef liverpool echo
Rúmlega þrítug íslensk kona hlaut í sumar þriggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir aðild að umfangsmiklu fíkniefnamáli í Bretlandi. Barnsfaðir hennar hlaut 12 ára dóm og annar maður sem ákærður var í málinu hlaut 10 ára dóm.

Fyrst var greint frá málinu í fyrra en í júlí það ár höfðu þremenningarnir verið handteknir ásamt einum manni til viðbótar. Lögreglan hafði þá gert húsleit heima hjá íslensku konunni og barnsföður hennar en þau eiga eina dóttur saman og bjuggu í bænum Melling á Norður-Englandi, ekki langt frá Liverpool.

Við húsleitina heima hjá parinu og í bíl þriðja mannsins fundust samtals þrettán kíló af heróíni, 1,2 milljónir evra og 38.000 pund í reiðufé, sem samsvara rúmum 160 milljónum króna. Lögregla mat götuverð heróínsins sem fannst á 1,3 milljónir punda eða um 155 milljónir króna.

Fjallað er um dóminn á vef Liverpool Echo. Þar er haft eftir dómara í málinu að upphæðin sem fannst í reiðufé í málinu hafi verið undraverð og magnið af fíkniefnum ótrúlega mikið.

Þremenningarnir játuðu öll peningaþvætti og þá játaði barnsfaðir íslensku konunnar að hafa ætlað að koma heróíninu í verð. Þriðji maðurinn var fundinn sekur um aðild að málinu í kjölfar aðalmeðferðar málsins fyrir dómstólum.

Hér að neðan má sjá myndband um málið af vef Liverpool Echo og hér má sjá nánari umfjöllun á sama vef.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×