Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Nova sendi fjölmiðlum síðdegis. Misjafnar skoðanir eru á ágæti myndbandanna en á þeim má sjá ungar stúlkur í gleðskap að neyta fíkniefna.

Í tilkynningunni segir Björn Sigurðsson, markaðsstjóri Reykjavík Studios, að efni sem þetta stuði marga en að þessi veruleiki sé til staðar í íslensku samfélagi.
Sjá einnig:„Ekki heppilegt efni fyrir unga notendur“
„Við erum auðvitað að nýta þetta tól til að markaðssetja myndina, en í leiðinni er ætlun okkar að sýna þann raunveruleika sem allt of margir ungir Íslendingar búa við. Ég geri mér grein fyrir því að þetta efni kann að stuða marga en því miður eru atburðir sem þessir að gerast í samfélaginu okkar á hverjum degi. Mér þykir leitt ef við höfum gengið fram af einhverjum en þegar horft er á alla söguna í gegn sést að við erum alls ekki að hefja upp þennan lífsstíl, heldur þvert á móti, að sýna fram á hversu alvarlegar afleiðingar hann hefur“, segir Björn

„Við ákváðum að taka þátt í þessu verkefni með Rvk. Studios og Baltasar Kormáki þar sem að við gerðum okkur ljóst hversu mikið forvarnargildi þetta gæti haft. Það er sífellt verið að leita nýrra leiða í forvarnarstarfi og sést það kannski best þegar horft er til forvarnarstarfs tengt umferðarmálum. Þetta var leið sem við ákváðum að prófa en ungmenni eru mikið á internetinu og horfa á sjónvarp án þess að við sem eldri erum séum endilega með þeim og mig grunar að mörg þeirra hafi séð grófara efni á þeim miðlum en það sem þarna birtist“, segir Liv.