Erlent

Sektuð fyrir að neita að klippa konu með höfuðslæðu

Samúel Karl Ólason skrifar
Malika Bayan og Merete Hodne.
Malika Bayan og Merete Hodne. Vísir/AFP
Norsk hárgreiðslukona þarf að greiða 140 þúsund króna (tíu þúsund norskar krónur) sekt fyrir að neita konu með höfuðslæðu um afgreiðslu. Hún var í morgun fundin sek um mismunun, en hún hefði getað verið dæmd í sex mánaða fangelsi.

Auk sektarinnar þarf hún að greiða um 70 þúsund krónur í málskostnað.

Atvikið átti sér stað í bænum Bryne í suðurhluta Noregs í október í fyrra. Merete Hodne, 47 ára, neitaði að afgreiða Malika Bayan, 24 ára, og vísaði henni frá hárgreiðslustofu sinni.

Niðurstaða dómstólsins var á þá leið að Hodne hefði vísvitandi neitað Bayan um afgreiðslu vegna þess að hún væri múslimi. Samkvæmt frétt Aftenposten tjáði hún sig einnig um atvikið á Facebook á sínum tíma.

Þar sagðist hún hafa neitað tveimur konum með höfuðslæður um afgreiðslu og að hún vildi ekki hleypa illu inn um sínar dyr.

AFP fréttaveitan segir að Hodne ætli sér að áfrýja úrskurðinum.

Hodne sagði í dómsalnum að hún sæi höfuðslæður sem pólitísk tákn fyrir hugmyndafræði sem hræddi hana. Ekki sem trúarlegt tákn.

Aftenposten hefur eftir Bayan að hún sé mjög ánægð með niðurstöðuna, en að refsingin skipti engu máli. Það sem skipti máli sé að staðfesta að mismunun sé ekki í lagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×