Fótbolti

Sigurður Ragnar yfirgefur Lilleström

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sigurður Ragnar á hliðarlínunni sumarið 2014 þegar hann þjálfaði karlalið ÍBV.
Sigurður Ragnar á hliðarlínunni sumarið 2014 þegar hann þjálfaði karlalið ÍBV. vísir/anton
Sigurður Ragnar Eyjólfsson er hættur störfum hjá norska úrvalsdeildarliðinu Lilleström.

Sigurður Ragnar fylgdi Rúnari Kristinssyni til Lilleström fyrir síðasta tímabil en sá síðarnefndi var látinn taka pokann sinn á dögunum.

„Ég átti fínan tíma hjá Lilleström. En ég tel rétt að stíga frá borði þar sem það er kominn nýr þjálfari,“ er haft eftir Sigurði Ragnari á heimasíðu Lilleström.

„Ég vil þakka öllum hjá félaginu fyrir samstarfið og vona að liðinu gangi vel í þeim mikilvægu leikjum sem framundan eru.“

Eftir tímabilið 2014, þar sem Sigurður Ragnar þjálfaði ÍBV í Pepsi-deild karla, bauðst honum starf hjá ástralska knattspyrnusambandinu. Hann valdi hins vegar að fara til Lilleström og vera aðstoðarþjálfari Rúnars.

Sigurður Ragnar þjálfaði áður kvennalandslið Íslands og kom því á tvö stórmót.

Lilleström situr í fimmtánda og næstneðsta sæti norsku deildarinnar þegar fjórum umferðum er ólokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×