Viðskipti innlent

Nýherji prufukeyrir heimsendingu með dróna

Sæunn Gísladóttir skrifar
Stórfyrirtæki eins og Amazon og DHL nýta sér dróna í auknum mæli til heim­sendinga.
Stórfyrirtæki eins og Amazon og DHL nýta sér dróna í auknum mæli til heim­sendinga. Vísir/Getty
„Okkur langaði sem sagt að prófa að fljúga með vöru milli staða úr verslun okkar. Við sendum Lenovo-spjaldtölvu úr Borgartúni yfir í næsta hverfi og það gekk snurðulaust fyrir sig, en vitanlega var drónanum fylgt eftir alla leið af þeim sem stýrði honum. Enn sem komið er getum við ekki sett á sjálfstýringu en hver veit hvað gerist í framtíðinni,“ segir Gísli Þorsteinsson, markaðsstjóri Nýherja.

„Við erum einfaldlega að horfa á sprengingu í framleiðslu og sölu á drónum á komandi árum. Gert er ráð fyrir að 2,5 milljónir dróna verði seldar í Bandaríkjunum á þessu ári. Árið 2020 má svo búast við að hátt í 7 milljónir svífi um loftin blá þar í landi, ef marka má Bloomberg,“ segir Gísli.

„Um leið og drónar verða sífellt fyrirferðarmeiri á heimilum, hvort sem það er hér á landi eða úti í heimi, þá eru mörg fyrirtæki að átta sig á notagildi þessara tækja. Ýmis nafntoguð fyrirtæki úti í heimi hafa prófað dróna við heimsendingar. Við vildum ekki vera eftirbátar, enda segjum við oft að upplýsingatæknifyrirtæki eins og Nýherji þurfi ávallt að vera með annan fótinn í framtíðinni,“ segir hann.

Gísli segir að þeir sem rýni inn í framtíðina séu nokkuð sannfærðir um að heimsendingar með dróna komi í staðinn fyrir sendla á mótorhjólum eða hjólum á komandi árum úti í hinum stóra heimi. „Allar spár gera ráð fyrir að heimsendingar með dróna verði veruleiki í nánustu framtíð úti í heimi. Við hjá Nýherja teljum okkur hafa góða reynslu af framtíðinni og kannski rekur þessa tæknibyltingu á fjörur okkar áður en langt um líður?“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×