Handbolti

Haukarnir úr leik í Evrópukeppninni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Janus Daði Smárason.
Janus Daði Smárason. Vísir/Vilhelm
Íslandsmeistarar Hauka eru úr leik í EHF-bikarnum í handbolta eftir fjögurra marka tap á móti Alingsås í Svíþjóð í dag. Alingsås HK vann leikinn 31-27 og þar með 55-51 samanlagt en fyrri leiknum lauk með jafntefli á Ásvöllum, 24-24.

Janus Daði Smárason og Guðmundur Árni Ólafsson voru markahæstir hjá Haukum með sex mörk hvor. Guðmundur Árni nýtti öll sex skotin sín en tvö marka hans komu af vítalínunni.

Heimir Óli Heimisson voru með fjögur mörk og þeir Adam Haukur Baumruk og Daníel Þór Ingason skoruðu þrjú mörk hvor.

Einar Ólafur Vilmundarson varði 11 af 28 skotum (39 prósent) en Giedrius Morkunas fann sig ekki og var aðeins með 18 prósent markvörslu (2 af 11).

Það var á brattann að sækja frá byrjun fyrir Haukana því Svíarnir skoruðu fimm af fyrstu sjö mörkum leiksins og voru komnir í 12-6 eftir 19 mínútna leik.

Gott leikhlé hjá Gunnari Magnússyni skilaði muninum niður í tvö mörk, 12-10, en Alingsås-liðið var síðan þremur mörkum yfir í hálfleik, 14-11,

Alingsås komst síðan í 21-14 í upphafi seinni hálfleiks og eftir það voru úrslitin nánast ráðin. Munurinn fór niður í þrjú mörk þegar sex mínútur voru eftir en nær komst Haukaliðið ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×