Innlent

Tóg flæktist í skrúfu báts við sjóeldiskví í Fossfirði

Atli Ísleifsson skrifar
Úr Arnarfirði á Vestfjörðum. Fossfjörður gengur til suðurs inn úr Arnarfirði.
Úr Arnarfirði á Vestfjörðum. Fossfjörður gengur til suðurs inn úr Arnarfirði. Fréttablaðið/JSE
Óhapp varð við sjóeldiskví Arnarlax í Fossfirði í gærkvædi þegar tóg úr kvíafestingu flæktist í skrúfu brunnbáts sem var að sækja lifandi fisk til að flytja í land. Varðskip Landhelgisgæslunnar var sent á vettvang vegna slyssins.

Í tilkynningu frá Arnarlaxi kemur fram að kafarar hafi losað tógið frá bátnum í morgun sem hafi svo verið siglt fyrir eigin vélarafli til hafnar á Bíldudal. Að sögn skapaðist engin hætta á slysum á fólki né heldur hafi orðið tjón á tækjum eða búnaði.

„Engin hætta skapaðist heldur á því að lax slyppi úr kvíum. Þar sem veður var afleitt og vitað var um veru varðskipsins Þórs í nálægri höfn var Landhelgisgæslan beðin um að senda skipið á vettvang í öryggisskyni.

Vegna veðurs var ákveðið að fresta því að losa bátinn og færa til hafnar þar til í birtingu í morgun. Fyrir nóttina var gengið þannig frá hnútum að engin hætta væri á því að bátinn myndi reka í átt að kvíunum. Í morgun var veður orðið kyrrt og reyndist auðvelt að losa bátinn og sigla til hafnar. Var báturinn affermdur og framleiðslan í landi og önnur starfsemi komin í eðlilegt horf strax um tíuleytið.

Ástæður óhappsins liggja ljósar fyrir og það er mat þeirra sem komu að aðgerðum á vettvangi að viðbrögð Arnarlax, m.a. með því að kalla tafarlaust eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar vegna veðursins, hafi verið rétt. Áhafnir tveggja báta Arnarlax sem strax fóru á vettvang ásamt köfurum úr starfsliði félagsins náðu strax fullri stjórn á aðgerðum og öryggisþáttum,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×