Fótbolti

Eyjólfur: Strákarnir stóðust því miður ekki prófið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
„Þetta er gríðarlega svekkjandi,“ sagði Eyjólfur Sverrisson, þjálfari íslenska U-21 landsliðsins, eftir tap fyrir Úkraínu á Laugardalsvelli í kvöld.

Úkraína vann 4-2 sigur í ótrúlegum leik þar sem sigur Íslands hefði fleytt strákunum okkar í lokakeppni EM í Póllandi næsta sumar.

Ísland skoraði aðeins eitt mark í fyrri hálfleik þrátt fyrir að skapa sér fjölda færa. Úkraína jafnaði svo metin snemma í síðari hálfleik og hleypti leiknum í uppnám.

„Við fengum klaufalegt mark á okkur og það breytti leiknum. Við þurftum að leysa upp leikinn og spila bara sóknarbolta. Við erum ekki góðir í því,“ sagði Eyjólfur eftir leikinn.

„Við þurftum að opna okkur og því fór sem fór. Við áttum að klára þetta í fyrri hálfleik enda voru þeir ekki að skapa sér færi. Mörkin sem við fengum á okkur voru bara klaufaleg.“

Hann segir að slæmt veður sé engin afsökun. „Við áttum bara að nýta færin í fyrri hálfleik. Þá hefði þetta verið búið.“

„Mér líður illa. Sérstaklega fyrir hönd strákanna. Þeir komu sér í þessa stöðu og því miður náðu þeir ekki að nýta sér þetta tækifæri. Því miður stóðust þeir ekki prófið. Seinni hálfleikur var ekki nógu öflugur hjá okkur.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×