Skoðun

Móðurkviður eða það sem kemur þér ekki við

Guðrún Svavarsdóttir skrifar
Ég vaknaði í morgun og fann að einhver var fastur við mig. Án minnar vitundar höfðu samtök tónlistarunnenda fest heimsfrægan fiðluleikara við mig með slöngum og snúrum. Hann er með banvænan sjúkdóm og aðdáendur hans hafa vikum saman reynt að komast að því hver sé sömu blóðtegundar og hann. Núna er æðakerfi okkar samtengt og nýrun mín notuð til þess að afeitra blóðið hans. Það kom í ljós að ég er sú eina sem passa og er nógu hraust til að afeitra blóð tveggja einstaklinga. Eftir að við vorum tengd, er ekki aftur snúið. Læknarnir segja að ef ég aftengist honum, muni hann deyja. Ég get þó huggað mig við það að þetta muni bara taka níu mánuði. Eftir það verður allt í lagi með fiðluleikarann.

10. október síðastliðinn birtist grein eftir Ívar Halldórsson um fóstureyðingar. Þar segist hann ekki styðja rétt „óvart verðandi mæðra [...] til að ákveða hvort afkvæmi þeirra fái að lifa eða deyja.“ Hann skammist sín alls ekki fyrir þessa skoðun sína, þó að hún sé kannski ekki vel liðin. Hann er ekki sá eini sem hefur þessa skoðun og það er mikilvægt að þessari skoðun sé svarað, því hún getur verið hættuleg. Það er margt athugavert og áhugavert við pistil hans, sem er skrifaður í ljósi þess að pólska þingið tók þá mikilvægu ákvörðun að fella hamlandi frumvarp um fóstureyðingar.

„Að velja hverjir fá að lifa og hverjir fá að deyja er að [hans] mati ákvörðun sem enginn mennskur maður [sic] á að taka.“ En samt tökum við þessa ákvörðun á hverjum degi. Ef ég ákveð að taka getnaðarvarnarpillu þennan mánuðinn, þá er ég að koma í veg fyrir að manneskja sem hefði verið getin í þessum mánuði, fái að fæðast. Með því að ákveða að sofa hjá þessum en ekki hinum ákveðum við hvaða manneskjur fái að lifa. Með því að ákveða að styðja ekki Rauða Krossinn, Lækna án landamæra eða Amnesty International, erum við að ákveða hver fær ekki lífsnauðsynlega hjálp, hver fær að deyja.

Það er mikilvægt að taka eftir því hvernig Ívar notar hugtakið einstaklingur. Hann virðist vera þeirrar skoðunar að fóstur séu einstaklingar, sem er ekki rétt. Myndi Ívar ganga svo langt að segja að fósturvísir sé einstaklingur? Já, hann myndi líklega gera það, því þá er „lífsneistinn“ kviknaður. Frjóvgað egg er óneitanlega vísirinn að lifandi manneskju, en eigum við að syrgja hvert einasta frjóvgaða egg sem kemur sér ekki fyrir í leginu heldur skolast burt með blæðingum? Varla. Að segja að kona lifi af fóstureyðingu ætti því að vera sambærilegt því að segja að ég hafi lifað af blæðingar móður minnar. Ég var ekki til, konan var ekki til, ekki eins og við tölum um einstaklinga. Þetta voru hvort tveggja lífverur, en varla einstaklingar. Þetta er mikilvægur greinarmunur. 

Fóstur eru ekki einstaklingar með ótvíræð réttindi (þó að kona geti að sjálfsögðu veitt fóstri mikil réttindi ef hún ákveður það). En það er hægt að láta eins og fóstur séu einstaklingar til þess að vekja upp réttar tilfinningar; viðbjóð eða sorg í þessu tilfelli. Ég held að flestir séu sammála um að tveggja mánaða fóstur sé ekki það sama og nýfætt barn. Ég ætla ekki að skrifa langa útskýringu á því hvað einstaklingur er, sem vísindin segja að sé ekki orðinn til þegar hefðbundin fóstureyðing á sér stað, heldur vekja athygli á því að þegar það kemur að fóstureyðingu eru kannski (en samt líklega ekki) tveir, en augljóslega einn einstaklingur sem skiptir máli. Það er móðirin.

Auðvitað getur verið fallegt og frábært þegar nýtt líf verður til, en það er ekki þar með sagt að konum beri skylda til þess að ganga með fóstur sem þær vilja ekki ganga með. Mér ber ekki skylda að samþykkja að halda fiðluleikaranum á lífi. Auðvitað væri það aðdáunarvert ef ég ákveddi að gera það. Auðvitað má fólkið í kringum mig reyna að sannfæra mig um að halda þessari tengingu í níu mánuði. En auðvitað ræð ég hvað ég geri við líkama minn.

Meðganga er fallegt samband, sérstaklega þegar fólk ákveður fyrirfram að stofna til þess. En á sama tíma getur þetta samband verið hræðilegt ef maður veit að það er engin undankomuleið. Það getur vel verið að fóstur hafi einhver réttindi í sjálfu sér, og að ef fóstrið er skoðað eitt og sér, sé rangt að eyða því. En fóstrið er ekki eitt og sér. Réttindi fósturs geta ekki og ættu ekki að vera mikilvægari en réttindi móðurinnar. Sjálfsákvörðunarréttur kvenna á ekki að enda þar sem fóstrið byrjar, óljós réttindi fósturs til lífs eiga ekki að trompa sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir líkama sínum.

Auðvitað er ég þakklát fyrir að mamma mín og amma mín og langamma mín og langalangamma mín ákváðu að eignast mig, mömmu mína, ömmu mína, langömmu mína. Það er gott að vera einstaklingur og fá að blómstra og kannski verða snillingur. Fóstur er möguleiki á því að verða manneskja og verður verðandi manneskja þegar kona ákveður að ganga með það. Fósturmissir er sorg þegar foreldrar eru að bíða eftir verðandi manneskju. Sama sorg lætur á sér kræla þegar kona, sem heldur að hún sé ólétt, kemst að því að hún er það ekki. Það er sorglegt að missa verðandi manneskju, sama hvort hún sé til sem fóstur eða ekki.  En þessi hugmynd um verðandi manneskju er ekki alltaf til, þó að fóstrið sé til. Fóstur eru ekki alltaf verðandi manneskjur, þó að manneskjur hafi allar einu sinni verið fóstur.

Ég ætla ekki einu sinni að minnast á þá tímaskekkju að ganga út frá því að kona sé strax orðin móðir en ekkert sé minnst á feðurna og þeirra ábyrgð eða val.

Fiðluleikaralíkinguna setti heimspekingurinn Judith Jarvis Thomson fyrst fram í grein sinni „A Defense of Abortion.“ Meðganga sem samband er hugmynd sem fengin er úr grein Margaret Little, „Abortion, intimacy, and the duty to gestate.“




Skoðun

Sjá meira


×