Innlent

Sporvagnaferð Dags kostaði borgina yfir milljón króna

Benedikt Bóas Hinriksson skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri
Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) greiddu kostnað vegna ferðar Dags B. Eggertssonar borgarstjóra til Strassborgar, Kaupmannahafnar og Vancouver þar sem hann kynnti sér rekstur sporvagna. Kostnaður Reykjavíkurborgar vegna þátttöku aðstoðarmanns borgarstjóra, sviðsstjóra umhverfis- og skipulagssviðs og samgöngustjóra nam um 1,3 milljónum.

Þetta kom fram á borgarráðsfundi Reykjavíkurborgar á fimmtudag. Kostnaðurinn var um 300 þúsund vegna dagpeninga, 640 þúsund fyrir flug og rútu og 370 þúsund vegna gistikostnaðar. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokks spurðu hvers vegna ákveðið hefði verið að fara til borganna og um kostnaðinn.

Í svari borgarstjóra segir að ferðin hafi verið sérstaklega farin með það í huga að skoða utanumhald og umgjörð utan um uppbyggingu hágæðakerfis almenningssamgangna, léttlestar- eða hraðvagnakerfi sem kallað hefur verið Borgarlínan. Í samræmi við tillögu skrifstofu samtakanna fór borgarstjóri Reykjavíkur ásamt bæjarstjórum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúum innanríkisráðuneytisins, Vegagerðarinnar og Strætó til borganna til að kynna sér reynsluna af uppbyggingunni.

Kaupmannahöfn var valin vegna létt- og neðanjarðarlestakerfis borgarinnar sem hannað var af dönsku verkfræðistofunni COWI en sú stofa mun aðstoða SSH í skipulagsvinnu í kringum Borgarlínu, Strassborg vegna árangursríks samstarfs sveitarfélaga þar sem tekist var á við að byggja upp almenningssamgöngukerfi og breyta ferðavenjum íbúa og Vancouver vegna samstarfs ríkis og sveitarfélaga sem hefur skilað af sér PPP-módeli við uppbyggingu hágæðakerfis sem hefur orðið fyrirmynd margra slíkra verkefna. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×