Innlent

Beit lögreglumann í höndina

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögreglan á Suðurnesjum hafði í ýmis horn að líta um helgina.
Lögreglan á Suðurnesjum hafði í ýmis horn að líta um helgina. mynd/lögreglan
Ökumaður sem lögreglan á Suðurnesjum hafði afskipti af um helgina vegna gruns um ölvunarakstur brást illa við og beit lögreglumann í höndina. Lögreglumaðurinn fór á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja til skoðunar. Ökumaðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð þar sem tekin var af honum skýrsla.

Í gær barst lögreglunni ilkynning um innbrot í Vélsmiðju Sandgerðis. Hinn óboðni gestur hafði komist inn með því að brjóta rúðu í húsnæðinu. Fjármunir höfðu verið teknir úr fyrirtækinu en ekki var vitað með vissu um hve háa fjárhæð var að ræða. Lögreglan hafði upp á geranda sem reyndist vera ungur að árum og var forráðamönnum hans svo og barnaverndarnefnd gert viðvart, auk þess sem lögregla ræddi við hann.

Tvö slys urðu í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um helgina. Karlmaður var að fara niður af millilofti í Innileikjagarðinum eftir að hafa verið þar að störfum. Hann hugðist nota stiga til að komast aftur niður en ekki vildi betur til en svo að stiginn rann undan honum með þeim afleiðingum að maðurinn féll niður á gólfið. Hann fékk skurð á höfuðið og kvartaði undan eymslum. Hann var fluttur á bráðamóttöku Landspítala og tilkynning send á Vinnueftirlit ríkisins.

Þá slasaðist ungur drengur þar sem hann var að spila fótbolta í Reykjaneshöllinni og féll aftur fyrir sig. Talið var að hann hefði handleggsbrotnað og var hann fluttur til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×