Innlent

Segir Ísland setja gott fordæmi með jöfnu hlutfalli karla og kvenna á Alþingi

Anton Egilsson skrifar
Eva Heiða Önnudóttir segir það til mikillar fyrirmyndar að Ísland hafi nú hæsta hlutfall kvenþingmanna í Evrópu.
Eva Heiða Önnudóttir segir það til mikillar fyrirmyndar að Ísland hafi nú hæsta hlutfall kvenþingmanna í Evrópu. Vísir
Eftir niðurstöðu kosninganna eru konur 47,6% þingmanna en þær skipa 30 sæti af þeim 63 sem í boði eru á Alþingi . The Guardian vekur athygli á því í samantekt sinni um nýafstaðnar kosningar að þar með sé Ísland með hæsta hlutfall kvenþingmanna í Evrópu.

Ísland tók fram úr Svíþjóð sem hafði fyrir kosningarnar hér á landi í gær hæsta hlutfall kvenþingmanna eða 43,6%. Þá tyllir Ísland sér í fjórða sæti á heimsvísu yfir þjóðir með hæsta hlutfall kvenþingmanna en einungis Rúanda, Bolivía og Kúba státa af hærra hlutfalli.

Jöfn hlutföll til fyrirmyndar

Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur og stundakennari við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands sagði í samtali við fréttastofu að þessi staðreynd væri til mikillar fyrirmyndar.

„Það eru allir sammála um að við viljum hafa bæði karla og konur sem okkar fulltrúa. Það er alveg til fyrirmyndar að konur séu nú orðnar tæplega helmingur þingmanna” sagði Eva og bætti við að henni fundist sérstaklega gaman að sjá hve mikið af ungum og frambærilegum konum hafi setið ofarlega á listum hjá flestum flokkum. 

Hún segir Ísland setja gott fordæmi með tiltölulega jöfnu hlutfalli karla og kvenna á þingi og að þetta sendi jákvæð skilaboð til ungu kynslóðarinnar. Mikilvægt sé að bæði kyn hafi fyrirmyndir á þessum vettvangi.

„Þetta er mjög mikilvægt fyrir unga fólkið okkar, bæði stráka og stelpur, að hafa flottar fyrirmyndir.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×