Innlent

Kvennalistinn náð markmiði sínu rúmum þrjátíu árum frá stofnun

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Guðrún Ögmundsdóttir sem var ein af stofnendum Kvennalistans fagnar því að konur verði 48 prósent þingmanna á næsta kjörtímabili eða þrjátíu talsins. 

„Þetta er ótrúlega skemmtilegt. Kvennalistinn lagði upp með þetta, að vera með sitt framboð svo konur kæmust á þing. Með fleiri konum breytist samtalið og í því er gríðarlegur sigur. Nú sér maður möguleika á því að konur taki sig saman, flytji frumvörp og þingsályktanir. Konur eiga nefnilega mjög auðvelt með að vinna saman þvert á flokka,“ segir Guðrún.

Guðrún Ögmundsdóttir er ein af stofnendum Kvennalistans.vísir/gva
Þótt flestar konur komi úr Sjálfstæðisflokknum, eða sjö talsins, eru þær aðeins þriðjungur þingmanna flokksins. Guðrún segir Sjálfstæðismenn eiga nokkuð í land. 

„Ég held að á meðan þau eru með prófkjörin eins og þau eru þá sé þetta erfitt. Kannski komast þau á þann stað að líta á konur jafnar körlum árið 2020. Það var sérlega ánægjulegt að sjá Unni Brá fara inn, sem var hent út fyrir mikið karlastóð á Suðurlandi,“ segir Guðrún.   

Jafnvel þótt helsta markmiði Kvennalistans sé náð segir Guðrún þurfa að halda áfram baráttunni. „Við þurfum að huga að jafnræði annarra hópa. Það þarf að fá allan þennan margbreytileika inn og þar erum við komin stutt á veg. En konur geta kannski ýtt á það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×