Innlent

Oddný Harðardóttir: „Ég geri það sem er flokknum fyrir bestu“

Atli Ísleifsson skrifar
Oddný Harðardóttir tók við formannsembætti  Samfylkingarinnar síðasta vor.
Oddný Harðardóttir tók við formannsembætti Samfylkingarinnar síðasta vor. Vísir/Ernir
„Við skoðum það í samhengi við annað, hvað við teljum heppilegt að gera. Það hefur engin krafa komið fram um það að ég fari að stíga til hliðar daginn eftir kosningar. Ég held að menn séu sammála um að við tökum ákvörðun um það saman. Ég geri það sem er flokknum fyrir bestu,“ segir Oddný Harðardóttir, aðspurð um hvernig hún meti stöðu sína eftir þingkosningarnar.

Flokkurinn hlaut sína verstu kosningu í nótt frá því að flokkurinn var stofnaður árið 2000 og fékk 5,7 prósent atkvæða og þrjá þingmenn kjörna. Stjórn Samfylkingarinnar kom saman til fundar á skrifstofu flokksins í Reykjavík klukkan 16.30 í dag.

„Þetta var ekki neinn neyðarfundur. Við hittumst í dag þar sem það var sunnudagur og það gátu allir mætt. Það var bara sjálfsagt að stjórn flokksins myndi setjast niður og fara yfir niðurstöður kosninganna. Við þurfum að fara yfir praktíska hluti, eins og rekstur flokksins. Þegar færri þingmenn eru verður minna um fjármuni til að reka flokksskrifstofu og svo framvegis.

Við ákváðum að leyfa rykinu að setjast og munum svo ræða um framhaldið og ákveða skref fyrir skref hvernig við förum að næstu daga,“ segir Oddný sem segir að staða hennar í embætti formanns hafi ekki verið rædd sérstaklega.

Flokkurinn leigir nú skrifstofu á Hallveigarstíg 1 í miðborg Reykjavíkur. Oddný segir ljóst að flokkurinn þurfi að minnka við sig í kjölfar niðurstaðna kosninganna.

„Nú þurfum við að halda framkvæmdastjórnarfund og flokksstjórnarfund. Þetta gerist allt á sínum hraða. Við verðum að finna út hvernig við getum byggt upp flokkinn. Við ætlum ekki að gefast upp og henda frá okkur jafnaðarmannahugsjóninni. Við þurfum að finna út úr þessu í sameiningu. Það gerist ekki daginn eftir kosningar að það sé fullbúið skipulag,“ segir Oddný.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×