Innlent

Hundruð barna alin upp til varanlegrar fátæktar í Reykjavík

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Samsett/GVA/Getty
Hundruð barna sem búsett eru í Reykjavík eru alin upp til varanlegrar fátækar og „ógnvænlegur húsnæðisskortur“ magnar upp erfiðar aðstæður berskjaldaðs fólks í Reykjavík. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Rauða krossins í Reykjavík sem gefin var út í dag.

„Þessi börn eru síður á leikskóla, taka minni þátt í íþrótta- og tómstundastarfi en börn foreldra í betri efnum, þau stunda ekki tónlistarnám og hafa almennt takmarkaðri aðgang að félagslegum tengslanetum eða öðrum gæðum samfélagsins en börn efnameiri foreldra,“ segir í skýrslunni.

Ómar Valdimarsson mannfræðingur vann skýrsluna, sem ber nafnið Fólkið í skugganum: athugun á högum lakast settu borgarbúanna, og er liður í viðleitni Rauða krossins til að kanna aðstæður í nærsamfélaginu á hverjum stað. Skýrslan er samantekt úr fyrirliggjandi rannsóknum og viðtölum við á fjórða tug sérfræðinga.

Breiðholtvísir/gva
Breiðholtið sker sig úr

Í skýrslunni er bent á Breiðholtið skeri sig úr öðrum hverfum Reykjavíkur að ýmsu leyti þó þar megi einnig finna öflugt ungmennastarf.

Þar eru „fleiri ungar einstæðar mæður á fjárhagsstyrk, fleiri fatlaðir og fólk með geðraskanir en í öðrum hverfum borgarinnar, menntunarstig er lægra... og þar eru flestir leigjendur í félagslegu húsnæði með börn undir 18 ára aldri.“

Í skýrslunni er einnig dreginn fram aðstöðumunur milli þeirra flóttamanna sem koma til landsins í boði stjórnvalda og hinna, sem fá alþjóðlega vernd á Íslandi eftir hælisleit. Svokallaðir kvótaflóttamenn fá húsnæði við hæfi, sérstakan félagslegan stuðning og ríkuleg tækifæri til íslenskunáms. Flóttafólk sem kemur í gegnum hæliskerfið þarf hins vegar að hefja líf í nýju landi með því að byrja að leita að húsnæði á þröngum leigumarkaði og fær mun minni sértækan stuðning.

Skýrslan var gerð til að kortleggja aðstæður berskjaldaðs fólks í höfuðborginni í þeim tilgangi að geta betur brugðist við þörfum í nærsamfélaginu. Skýrslan hefur verið kynnt stjórnendum hjá Reykjavíkurborg og verður lögð til grundvallar verkefnavali Rauða krossins í Reykjavík á næstu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×