Innlent

Reykjavíkurborg hafnar ásökunum um að hafa brotið trúnað

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Minnihluti borgarinnar sakar meirihlutann um trúnaðarbrest vegna birtingu fjárhagsáætlunar.
Minnihluti borgarinnar sakar meirihlutann um trúnaðarbrest vegna birtingu fjárhagsáætlunar. Vísir/GVA
Reykjavíkurborg segist ekki hafa brotið trúnað með birtingu fjárhagsætlunar borgarinnar áður en frestur til þess rann út. Trúnaðarskyldunni hafi verið aflétt með birtingu gagnanna í Kauphöllinni í gær.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ívari Erni Ívarssyni, regluverði Reykjavíkurborgar.

Minnihlutinn í Reykjavíkurborg hefur sakað meirihlutann um að hafa brotið trúnað með því að birta fjárhagsáætlunina áður en frestur til birtingarinnar hafi runnið út, og greint frá henni á lokuðum blaðamannafundi, án aðkomu minnihlutans. Minnihlutanum hafi verið gert að halda trúnaði, ella hefði hann átt yfir höfði sér fésektir.

Halldór Halldórsson og Hildur Sverrisdóttir hafa bæði lýst yfir mikilli óánægju á Facebook í dag. Hildur segir í samtali við fréttastofu að meirihlutinn sé að beita brellibrögðum til að fá pólitíska umræðu um fjárhagsætlunina.

„Jafnræðið í pólitíkinni hlýtur að skipta máli. Það sem gerist þarna er að við fáum upplýsingar um að fullum trúnaði verði að gæta, og við gerum það, en á móti er meirihlutinn með lokaðan blaðamannafund þar sem bara þeirra sýn á fjárhagsáætlunina fær að hljóma,“ segir Hildur.

Halldór Halldórsson segir minnihlutann ekki hafa viljað taka neina áhættu í þessum efnum, og því hafi það komið á óvart að sjá meirihluta borgarstjórnar ræða málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 og Ríkisútvarpsins í gær.

Ívar Örn, regluvörður borgarinnar, segir að fjárhagsáætlunin, ásamt fylgigögnum, hafi verið birt í Kauphöll klukkan 12.45. Með þeirri opinberu birtingu afléttist trúnaðarskylda innherja af gögnunum í samræmi við ákvæði laga og reglna um verðbréfaviðskipti.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×