Erlent

Íraksher kominn inn í úthverfi Mosúlborgar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
VopnaðIr sjíamúslimar söfnuðust saman í bænum Zarka.
VopnaðIr sjíamúslimar söfnuðust saman í bænum Zarka. vísir/epa
Írakskar hersveitir eru komnar inn í úthverfi borgarinnar Mosúl, rúmri viku eftir að sókn stjórnarhersins og Kúrdasveita hófst til að ná borginni úr höndum vígasveita Íslamska ríkisins, eða Daish-samtakanna.

Fjölmiðlar skýrðu frá þessu í gærmorgun og sögðu innrásarliðið mæta harðri mótstöðu.

Haider al Abadi, forsætisráðherra Íraks, ræddi við fjölmiðla í gær og sagðist skora á Daish að gefast upp: „Þeir hafa ekkert val. Annaðhvort gefast þeir upp eða deyja,“ sagði hann.

Mosúl er síðasta stóra borgin sem Daish-samtökin ráða enn yfir í Írak, en þau náðu henni á sitt vald sumarið 2014.

Íraksher var í gærmorgun kominn með herlið inn í Gogjali-hverfi, sem er eitt af úthverfunum austan til í Mosúlborg. Löng leið er samt enn eftir inn í miðborgina og búast má við hörðum átökum með miklu mannfalli.

Fjölþjóðaherlið undir forystu Bandaríkjahers hefur aðstoðað innrásarliðið, meðal annars með loft­árásum.

Breska blaðið The Guardian skýrði í gær frá því að heil fjölskylda hafi látið lífið í loftárás bandaríska hersins á heimili hennar í þorpinu Fadilíja skammt frá Mosúl.

Íbúðarhús fjölskyldunnar varð tvisvar fyrir sprengju og gjöreyðilagðist þannig að vart stendur steinn yfir steini, bókstaflega. Að sögn The Guardian þeyttust brot úr húsinu og sprengjunum allt að þrjú hundruð metra. Þar létu átta manns úr sömu fjölskyldunni lífið, þar af þrjú börn.

Nokkur hundruð fjölskyldur búa í þessu þorpi og er fullyrt að þær verði fluttar burt til flóttamannabúða.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×