Erlent

Lögreglan tekur skref til ákæru kristins ríkisstjóra

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá mótmælum gegn Purnama fyrr í mánuðinum.
Frá mótmælum gegn Purnama fyrr í mánuðinum. Vísir/GEtty
Ríkisstjóri borgarinnar Jakarta í Indónesíu hefur fengið stöðu grunaðs manns. Hann er grunaður um að hafa móðgað Kóraninn og hafa ásakanirnar leitt til mikilla mótmæla í höfuðborg landsins.

Lögreglan hefur meinað Basuki Tjahaja Purnama að yfirgefa landið. Hann er kristinn og á rætur sínar að rekja til Kína. Purnama var fyrsti ríkisstjóri Jakarta, sem ekki er múslimi.

Kosningabarátta stendur nú yfir þar sem Purnama sækist eftir því að vera áfram ríkisstjóri Jakarta. Hann leiðir baráttuna samkvæmt skoðanakönnunum.

Málið á rætur að rekja til ræðu Purnama í september þar sem hann sagði samtök múslima í borginni vera að blekkja kjósendur. Þeir hafi ítrekað mistúlkað vers úr Kóraninum á þann veg að samkvæmt því yrðu leiðtogar múslima einnig að vera múslimar.

Samtök múslima sökuðu Purnama um að móðga Kóraninn og lögðu fram kæru til lögreglu. Sjálfur hefur hann beðist afsökunar en hann segir að þetta muni ekki binda endi á framboð hans. Hann segist ekki hafa verið að gagnrýna Kóraninn, heldur andstæðinga sína.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni mótmæltu rúmlega hundrað þúsund manns Purnama í byrjun mánaðarins.

Purnama gagnrýnir ákvörðun lögreglunnar, en hann yrði hann sakfelldur gæti hann verið dæmdur í fimm ára fangelsi. Hann vonast til þess að réttarhöldin verði opin og kallar eftir stuðningi kjósenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×