Innlent

„Áfram Ísland“ öskrin í Zagreb koma úr heiðursstúkunni

Birgir Olgeirsson skrifar
Vísir/Epa
„Þetta eru háværir menn. Ég og Geir erum hógværari,“ segir Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri knattspyrnusambands Íslands, um stuðningsmennina tvo sem hafa hvatt íslenska karlalandsliðið áfram til dáða á tómum Maksimir-leikvanginum í Zagreb í Króatíu.

Leikur íslenska landsliðsins gegn því króatíska er liður í undankeppni fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi árið 2018 en alþjóða knattspyrnusambandið Fifa setti áhorfendabann á króatíska knattspyrnusambandið vegna slæmrar hegðunar áhorfenda.

Klara Bjartmarz situr í stúkunni ásamt Geir Þorsteinssyni, formanni KSÍ, Róberti Agnarssyni stjórnarmanni KSÍ og Magnúsi Gylfasyni sem er í landsliðsnefnd KSÍ.

Þeir Róbert og Magnús hafa verið duglegir að láta heyra í sér með köllum á borð við „Áfram Ísland“ sem glymja yfir galtóma stúkuna og skila sér vel í útsendingunni.

Klara segir þau fjögur vera á meðal 20 áhorfenda á vellinum en hún á ekki von á því að þau fjögur, hún, Geir, Róbert og Magnús, muni efna til víkingaklappsins í stúkunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×