Fótbolti

Kona sest í forsetastólinn í franska fótboltanum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nathalie Boy de la Tour.
Nathalie Boy de la Tour. Vísir/Getty
Nathalie Boy de la Tour var í dag kosin forseti samtaka frönsku fótboltafélaganna, LFP, en hún er fyrsta konan sem sest í forsetastólinn .

Boy de la Tour tekur við af Frederic Thiriez sem hætti í apríl eftir fjórtán ára starf.  Thiriez settist í forsetastólinn árið 2002. L´Equipe segir frá.

Raymond Domenech, fyrrum þjálfari franska landsliðsins, vildi komast í forsetastólinn en tveir þriðju af samkomunni voru á móti því.  Hann dró framboð sitt til baka.

Eftir að framboði Raymond Domenech var hafnað leituðu menn til Nathalie Boy de la Tour sem fékk góða kosningu.

Domenech var búið að vinna mikið í fjölmiðlum síðan að hann hætti sem þjálfari franska landsliðsins eftir tap í úrslitaleik HM 2010.

Nathalie Boy de la Tour er ekki aðeins fyrsta konan til að setjast í forsetastólinn því fyrir þremur árum var hún fyrsta konan sem komst í stjórn samtakanna. Nathalie Boy de la Tour er fertugur viðskiptafræðingur.

Innan samtaka frönsku fótboltadeildarinnar eru 44 atvinnumannafélög í Frakklandi, 20 í 1. deild. 20 í 2. deild og fjögur í neðri deildum.  Samtökin sjá einnig um að halda franska deildarbikarinn en þar mega aðeins atvinnumannafélög taka þátt.

Samtökin hafa verið til síðan árið 1944 eða í 72 ár. Þetta eru því stór tímamót fyrir yfirstjórn franska fótboltans þótt að forsetastólinn færi viðkomandi meiri heiður en mikil völd. Framkvæmdastjóri samtakanna stýrir daglegu starfi innan þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×