Viðskipti innlent

Ölgerðin mun sjá Drukkstofu Óðins fyrir veigum

Birgir Olgeirsson skrifar
Jón Viðar Arnþórsson, forseti Mjölnis, Andri Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar og Gunnar Nelson.
Jón Viðar Arnþórsson, forseti Mjölnis, Andri Guðmundsson forstjóri Ölgerðarinnar og Gunnar Nelson. Mjölnir
Mjölnir og Ölgerðin skrifuðu á dögunum undir tíu ára samstarfssamning en sá er sagður einn stærsti samningur sem Ölgerðin hefur gert við íþróttafélag. Bardagaklúbburinn Mjölnir stendur nú í framkvæmdum á nýrri aðstöðu klúbbsins gömlu keiluhöllinni í Öskjuhlíðinni.

Er um að ræða auglýsinga- og samstarfssamning en Ölgerðin mun fá að setja upp auglýsingaskilti í húsnæðinu ásamt því að keppnisfatnaður Mjölnismanna verður merktur Ölgerðinni á einhvern hátt.

En í nýja húsnæðinu í Öskjuhlíðinni verður ekki aðeins aðstaða til æfinga og keppni í bardagaíþróttum. Þar verður einnig kaffihús og bar sem hefur fengið nafnið Drukkstofa Óðins, og verða því þar drykkir frá Ölgerðinni eftir að þessi samningur var undirritaður.

Jón Viðar Arnþórsson, forseti Mjölnis, segir í samtali við Vísi stefnt sé að því að staðurinn opni í endaðan janúar og verður hann opinn öllum. „Hann mun lúkka skuggalega, langharðasti bar í bænum,“ segir Jón.

Verður staðurinn allur í víkingastíl og verður þar meðal annars sýnt frá UFC og öðrum bardögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×