Innlent

Fatlaðir ósáttir við að fá ekki þjónustu um áramót

Ferðaþjónusta fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu segir verklagið nú ekki frábrugðið síðustu árum.
Ferðaþjónusta fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu segir verklagið nú ekki frábrugðið síðustu árum.
samfélagsmál Fatlaðir eru margir hverjir óánægðir með að Ferðaþjónusta fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu hætti akstri klukkan þrjú á gamlársdag. Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, segir þessa framkvæmd langt í frá í takt við þarfir fatlaðra og er ósáttur við framkvæmdina. Strætó segir hins vegar að verklagið við akstur fatlaðra um þessi jól sé ekki frábrugðið því sem verið hefur. „Okkur þykir þessi framkvæmd fyrir neðan allar hellur,“ segir Bergur Þorri. „Þetta er bara eitt dæmi af mörgum í sambandi við ferðaþjónustu fatlaðra sem við skiljum bara ekki.“ Í þjónustulýsingu fyrir Ferðaþjónustu fatlaðra sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa samþykkt, segir að akstur á stórhátíðardögum sé eins og á sunnudögum eða frá 11 að morgni til miðnættis. Strætó segir hins vegar að sú klásúla eigi ekki við um aðfangadag og gamlársdag. „Akstur í ár er með sama fyrirkomulagi og hefur verið undanfarin ár. Akstur á aðfangadag og gamlársdag er miðaður við að síðustu farþegar fari um borð k.l 15.00. Eftir þann tíma er farþegum vísað á leigubifreiðastöðvar eins og öðrum farþegum almenningssamgangna og hafa stöðvarnar m.a. sérútbúna bíla fyrir fatlaða,“ segir Erlendur Pálsson, upplýsingafulltrúi Strætó. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Strætó, segir það klaufalega orðað í þjónustulýsingunni að akstur á stórhátíðardögum miðist við sunnudaga. „Þá erum við að tala um jóladag og nýársdag. Gamlársdagur er í raun ekki allur stórhátíðardagur. Samkvæmt þjónustulýsingu er Ferðaþjónusta fatlaðra alveg eins og almenningssamgöngur og þær stöðvast á þeim tíma,“ segir Heiða Björg. Bergur Þorri segir þjónustuna alls ekki nægilega góða. „Í raun er Ferðaþjónusta fatlaðra haldreipi margra fatlaðra til að verjast einangrun og margir stóla á þessa þjónustu. Það er því mjög leiðinlegt ef einhverjir þurfa að sitja heima og komist ekki leiðar sinnar um áramótin,“ segir Bergur Þorri. sveinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×