Innlent

Móðir kærir Hendrix fyrir hönd ólögráða dóttur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hendrix er rekinn í kjallaranum við Stórhöfða 17. Reksturinn er með öllu ótengdur veitingastaðnum Nings á efri hæð hússins.
Hendrix er rekinn í kjallaranum við Stórhöfða 17. Reksturinn er með öllu ótengdur veitingastaðnum Nings á efri hæð hússins. Vísir
Hildur Ýr Ísberg, móðir 17 ára stúlku, hefur kært skemmtistaðinn Hendrix við Gullibrú til lögreglunnar eftir að staðurinn bauð dóttur hennar bjórkút í aðdraganda 18 ára afmælisins.

Í samtali við Vísi segir Hildur að dóttir hennar hafi fengið einkaskilaboð frá skemmtistaðnum á Facebook þar sem henni var boðinn bjórkútur gegn því að hún héldi afmælið sitt á staðnum.

Enginn skrifar undir skilaboðin en viðtakandanum er bent að hringja í símanúmer staðarins til að fræðast frekar um tilboðið.

„Dóttir mín sýndi mér skilaboðin, mér fannst þau út í hött og því ákvað ég að fara með þetta lengra,“ segir Hildur og bætir við að lögreglan sé nú með málið til athugunar.

Haukur Vagnsson, framkvæmdastjóri skemmtistaðarins, segist ekki þekkja til þessa tiltekna máls, hann hafi fyrst heyrt af því í fjölmiðlum, en mbl greindi fyrst frá.

Stúlkan líklega villt á sér heimildir

Hann segir starfsmenn staðarins ekki halda utan um Facebooksíðuna sem sendi skilaboðin heldur hafi síðunni verið útvistað. „Þetta kemur nú ekki frá okkur, þessi boð. Við erum með aðila sem sér um Facebókarsíðuna fyrir okkur og sér um að bóka afmælin í salinn. Hann hefur greinilega eitthvað farið út fyrir verksvið sitt,“ segir Haukur.

Sá sem stýrir Facebooksíðunni hafi yfirlit yfir vini Hendrix og geti því séð hverjir eigi afmæli á næstunni. Alla jafna fá þeir sem ekki hafa náð áfengiskaupaaldri tilboð sem þessi.

Haukur gerir því ráð fyrir því að dóttir Hildar hafi annað hvort vilt á sér heimildir eða falið aldur sinn á Facebook til þess að slíkt boð hafi ratað á hana. Fyrir því séu mörg dæmi. „Það er þá viðkomandi sem er að gera eitthvað rangt en ekki við,“ segir Haukur.

„Við höfum sett ítrekað inn á síðuna og sent skilaboð á línuna um að þeir sem eru ekki orðnir 18 ára skuli vinsamlegast afvina Hendrix.“

Áður hefur verið fjallað um Hendrix í tengslum við ungan aldur gesta, nú síðast í maí síðastliðnum þegar lögregla lokaði staðnum í kjölfar unglingaskemmtunar.

Sjá einnig: Framkvæmdastjóri Hendrix segir aðgerðir lögreglu ólögmætar og hyggst kæra

Haukur undirstrikar að á Hendrix séu skýrar reglur um að þeir sem ekki séu orðnir tvítugir fái ekki afgreitt áfengi og að enginn sem sé yngri en 18 ára fái að vera á staðnum eftir klukkan 22.

Hann bíður nú viðbragða lögreglunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×