Innlent

Gloppótt símasamband á Vestfjörðum ekki boðlegt

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Bryndís Sigurðardóttir, ritstjóri Bæjarins Besta á Ísafirði, ræddi um gloppótt símasamband á Vestfjörðum í Bítinu í morgun. Bryndís setti inn frétt á síðu Bæjarins Besta þar sem hún fjallar um mann sem lenti í því að bíllinn hans bilaði upp á Steingrímsfjarðarheiði en því miður var ekkert símasamband.

„Hann varð bara að bíða þangað til einhver fór að sakna hans sem var nú sem betur fer fljótlega. Það er náttúrulega ekki símasamband nema bara á stöku stað allt djúpið. Maður getur keyrt í klukkutíma eða meira án þess að hafa nokkurt símasamband og eiginlega varla útvarp heldur. Þannig að það er bara stórhættulegt.“ segir Bryndís.

Aðspurð hvort að aukinn ferðamannastraumur leiði ekki til þess að þetta verði lagað þar sem umferðin hafi aukist svarar Bryndís að fjöldinn hafi aukist helling þó hann sé ekki jafn mikill og ferðamannafjöldinn fyrir sunnan. Hún nefnir að Dýrafjarðargöngin geti þó skipt máli í þessum efnum þar sem þá verði hægt að keyra hringinn og umferðin muni þar af leiðandi aukast. Þetta sé því spurning um öryggi að fjölga þarna sendum.



„Það er ekki eins og það búi bara tvær til þrjár hræður þarna. Þetta eru þúsundir manna sem búa hér á Vestfjörðum og þetta er auðvitað ekki boðlegt.“segir Bryndís.

Bryndís segir að það sé verið að þrýsta á að þetta lagist en það sé samt sem áður þannig að íbúarnir séu að berjast fyrir ýmsum bótum og þá geti þetta oft dregist. Hún bendir á að alltaf þurfi að forgangsraða.

„Þetta eru grundvallaratriði sem við erum að berjast fyrir og þá kannski lendir þetta ekkert endilega efst.“

Bryndís segist samt vera bjartsýn og að það sé mjög gott að búa þarna. Það sé mikill uppgangur og að 2017 verði jafnvel betra ár heldur en 2016.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×