Innlent

Fyrrverandi leiðtogi sænskra Jafnaðarmanna næsti sendiherra Svíþjóðar hér á landi

Atli Ísleifsson skrifar
Håkan Juholt sat á þingi fyrir hönd sænskra Jafnaðarmanna frá 1994 til 2016 og var formaður frá mars 2011 til janúar 2012.
Håkan Juholt sat á þingi fyrir hönd sænskra Jafnaðarmanna frá 1994 til 2016 og var formaður frá mars 2011 til janúar 2012. Vísir/AFP
Fyrrverandi formaður sænska Jafnaðarmannaflokksins, Håkan Juholt, verður næsti sendiherra Svíþjóðar hér á landi. Expressen greindi frá þessu í gærkvöldi.

„Ég hætti á þingi þann 11. september 2016 og hef verið að sækja um nokkur störf síðan. Eftir 22 ár á sænska þinginu vildi ég taka næsta skref og vinna að einhverju öðru,“ segir Juholt.

Sænska utanríkisráðuneytið hefur lagt til að Juholt taki við embættinu, en búist er við að sænska ríkisstjórnin taki málið fyrir og staðfesti í næsta mánuði.

„Ég er með mikla reynslu og vonast auðvitað til þess að að geta lagt eitthvað af mörkum. Ég vil gjarnan gera eitthvað meira og vonast til þess að einhver hafi trú á að ég geti gert það,“ segir Juholt.

Aðspurður um ástæður þess að hann hafi sóst eftir að taka við sendiherrastöðu á Íslandi segir hann að sú staða losni á næsta ári. „Svo er Ísland land með sterka menningarvitund.“

Juholt sat á sænska þinginu fyrir hönd sænskra Jafnaðarmanna frá 1994 til 2016 og var formaður frá mars 2011 til janúar 2012.

Juholt tók við formennsku í flokknum af Monu Sahlin, en Juholt sagði af sér eftir að sænskir fjölmiðlar greindu frá því að hann hafi þegið of háar upphæðir í styrk vegna íbúðar sem hann deildi með sambýliskonu sinni.

Hann endurgreiddi upphæðina og sagðist hafa þegið upphæðina í góðri trú. Málið skaðaði hins vegar flokkinn og sagði hann af sér í ársbyrjun 2012. Stefan Löfven, núverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, tók þá við formannsembættinu I flokknum.

Bosse Hedberg gegnir stöðu sendiherra Svíþjóðar hér á landi um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×