Innlent

Þakplötur og gámar fuku á Hofsósi

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. mynd/landsbjörg
Þakplötur fuku af íbúðarhúsum á Hofsósi og fatagámar tókust á loft í hvassviðrinu í dag. Þetta staðfesti Elvar Már Jóhannsson hjá Björgunarsveitinni Gretti á Hofsósi. Sveitin sinnti útköllunum um eittleytið í dag. 

Kröpp lægð hefur verið yfir landinu í dag með tilheyrandi hvassviðri og regni. Öllu innanlandsflugi var aflýst í dag og ferðaveður hefur verið slæmt. Meðal annars var Þjóðvegi 1 lokað við Hvalnes og Hlíðarsand, austan við Höfn í Hornafirði. 

Vindhraðinn var mestur á vestanverðu landinu en að sögn Þorsteins G. Gunnarssonar, upplýsingafulltrúa hjá Landsbjörgu, er útlit fyrir að óveðrinu sé að slota þrátt fyrir að víða séu enn sterkar hviður.

Að sögn Þorsteins var þó ekki mikið um útköll miðað við aðstæður. Þau útköll sem björgunarsveitir sinntu í dag voru helst á Vesturlandi, þar sem vindhraðinn var mestur. Í Reykjanesbæ og Stykkishólmi þurfti að kalla út björgunarsveitafólk til þess að festa vinnupalla sem voru að fjúka og einnig var óskað eftir aðstoð björgunarsveita á Bíldudal. 

Í vikunni er von á nokkrum lægðum og því ærin ástæða til þess að fara varlega á næstu dögum. „Það er nauðsynlegt að fylgjast vel með veðrinu og sæta lagi milli lægða, ekki leggja í hann þegar veðurhæðin er vaxandi,“ sagði Þorsteinn.

Hér er hægt að fylgjast með óveðrinu á gagnvirku veðurkorti af Íslandi. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×