Erlent

Shhaideh verður ekki nýr forsætisráðherra Rúmeníu

Atli Ísleifsson skrifar
Sevil Shhaideh er sögð náinn bandamaður leiðtoga rúmenskra Jafnaðarmanna, Liviu Dragnea.
Sevil Shhaideh er sögð náinn bandamaður leiðtoga rúmenskra Jafnaðarmanna, Liviu Dragnea. Vísir/EPA
Klaus Iohannis, forseti Rúmeníu, lýsti því yfir í dag að hann muni ekki skipa hina 52 ára Sevil Shhaideh sem nýjan forsætisráðherra landsins. Shhaideh hefði orðið fyrsta konan og fyrsti músliminn til að að gegna embættinu í landinu.

„Ég hef metið rökin með og gegn tillögunni og hef ákveðið að samþykkja hana ekki,“ sagði Iohannis í sjónvarpsávarpi fyrr í dag.

Jafnaðarmannaflokkurinn (PSD) vann sigur í nýafstöðnum þingkosningum í Rúmeníu og hlaut 45,1 prósent atkvæða. Þar sem leiðtogi flokksins, Liviu Dragnea, hafði áður hlotið dóm fyrir tilraun til kosningasvindls kaus flokkurinn að tilnefna Shhaideh sem forsætisráðherraefni sitt. Shhaideh er hluti tyrknesks minnihlutahóps í landinu.

Forsetinn greindi ekki nákvæmlega frá ástæðum ákvörðunar sinnar. Shhaideh er ekki með mikla stjórnmálareynslu, en hún var ráðherra þróunarmála um hálfs árs skeið í fyrrverandi ríkisstjórn Jafnaðarmanna sem fór frá árið 2015.

Shhaideh er sögð náinn bandamaður Dragnea og hafa andstæðingar Jafnaðarmanna sagt hana einungis vera strengjabrúðu hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×