Innlent

Álag á sjúkrahúsprestum í desember

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vigfús Bjarni Albertsson segir marga leita til presta i desember
Vigfús Bjarni Albertsson segir marga leita til presta i desember vísir/stefán
„Desember er álagsmánuður. Það sem er sárt verður sárara. Þetta er hátíð tilfinninga, fólk finnur meira til og allt sem gerist hefur mikil áhrif og ekki minni áhrif heldur en á öðrum tíma,“ segir Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahúsprestur á Landspítalanum. Hann segir að á þessum tíma leiti margir sem eigi um sárt að binda í eftirfylgniviðtöl.

Sex sjúkrahúsprestar eru í fullu starfi á Landspítalanum. Þeir veita sjúklingum viðtöl á dagvinnutíma og skipta sér niður á ýmis svið spítalans. Vigfús Bjarni sinnir Barnaspítala Hringsins. Utan dagvinnutíma, um helgar og á hátíðisdögum, er síðan einn prestur á bakvakt sem sinnir því sem kemur óvænt upp á. Það sem af er ári hefur orðið um tuttugu prósenta aukning í sálgæslusamtölum frá árinu í fyrra.

Prestarnir sex hafa átt 1.400 samtöl við einstaklinga, 1.200 samtöl við fjölskyldur og svo eru um 1.000 samtöl í eftirfylgd. „Viðtölum og útköllum fjölgar á milli ára,“ segir Vigfús Bjarni en kveðst ekki hafa skýringar á þessari þróun. „Ekki aðrar en þær að fólk er orðið duglegra við að leita sér aðstoðar,“ segir hann.

Vigfús segir að núna í desember hafi verið gríðarlega mikið af fjölskyldufundum. „Það er bæði fólk sem er að takast á við erfið tíðindi, er að fá erfið tíðindi og svo bara eftirfylgd. Þetta eru tíðindi sem varða líf og heilsu einhvers í fjölskyldunni,“ segir hann. Hann segir starfið alls ekki snúast eingöngu um að halda utan um fólk sem hefur misst sína nánustu heldur líka aðstandendur fólks sem stríðir við erfið veikindi. „Maður er mikið í viðtölum við fólk sem er að berjast á þeim tíma með fólkinu sínu. Það er meira heldur en hitt,“ segir hann. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×