Skoðun

Margbreytileikinn – allra ávinningur

Jóhanna Harpa Árnadóttir skrifar
Um þessar mundir fagna Landssamtökin Þroskahjálp fjörutíu ára starfsafmæli en samtökin hafa barist fyrir réttindum, og unnið að málefnum fólks með þroskahömlun og annarra fatlaðra – barna og fullorðinna til að tryggja þeim fulla jafnréttisstöðu á við aðra þjóðfélagsþegna. Á þessum tíma hafa orðið miklar framfarir í löggjöf og framkvæmd þjónustu í átt til aukinna mannréttinda fatlaðs fólks á Íslandi. Því miður eru þó enn of mörg dæmi um að raunverulegur réttur sé bara í orði, en ekki á borði, og réttindi og tækifæri fatlaðs fólks eru langan veg frá því að vera til jafns við aðra.

Í 27. grein Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um þær ráðstafanir sem aðildarríkin skulu gera til að tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika. Til að stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans eiga ríkin að marka sér stefnu við hæfi, gera áætlun um sértækar aðgerðir, skapa hvatningu og grípa til viðeigandi aðgerða til að auka þátttöku fatlaðs fólks á vinnumarkaðnum.

Það eru einstaka íslensk fyrirtæki sem hafa gengið á undan með góðu fordæmi og ráðið til sín starfsfólk úr röðum þeirra sem ekki hafa sömu möguleika til starfa á almennum vinnumarkaði og flestir hafa. Vert er að vekja athygli á þessu framtaki fyrirtækjanna og það gefur neytendum kost á að velja að eiga viðskipti við þau fyrirtæki umfram önnur sem bjóða upp á sambærilega vöru eða þjónustu.

Hvernig er hægt að ná til fleiri fyrirtækja?

Það er ekki mjög langt síðan í árum talið að upplýsingagjöf um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja kom fram á sjónarsviðið undir þeim formerkjum. Ýmsar leiðir eru fyrirtækjum færar í að koma upplýsingunum á framfæri og mörg hver kjósa að gera það í ársskýrslum sínum. Á alþjóðavísu er annar vettvangur eins og Global Compact verkefni Sameinuðu þjóðanna.

Með þátttöku sinni í verkefninu skuldbinda fyrirtæki eða stofnanir sig til þess að vinna að þeim grundvallarviðmiðum sem sett eru fram er varða samfélagslega ábyrgð og styðja markmið Sameinuðu þjóðanna varðandi: Mannréttindi, vinnumarkaðinn, umhverfið og vinnu gegn spillingu. Í verkefninu felst að skila árlega inn skýrslu og gera grein fyrir framvindunni. Á þessu ári skiluðu 20 íslensk fyrirtæki inn Global Compact framvindu­skýrslu til Sameinuðu þjóðanna.

Málaflokkurinn samfélagsábyrgð fyrirtækja er undir stöðugum breytingum og svigrúm er til staðar fyrir fyrirtæki varðandi hvaða upplýsingar það setur fram um frammistöðu sína. Það gæti einnig átt við um frammistöðu í ráðningum. En til þess að hafa frá einhverju að segja þarf ávinningurinn af því að auka margbreytileika í ráðningum starfsfólks að ná athygli fyrirtækjanna. Fyrirtæki er ekki annað en fólkið sem þar starfar. Og hluti af þeim hópi eru stjórnendur (og stjórnarmenn) fyrirtækjanna sem þurfa að setja málið á dagskrá ef starfsmannahópurinn er einsleitur.

Samkeppnin um áherslur í fyrirtækjarekstri er mikil en til grundvallar er alltaf traustur efnahagur – öðruvísi geta fyrirtæki ekki staðið við skuldbindingar sínar. Það hlýtur því að vera stjórnvalda og íslenska ríkisins að veita málaflokknum viðeigandi athygli. Að marka stefnu og hvetja fyrirtæki til að gera betur í ráðningum fatlaðs fólks. Það þarf að auka sýnileika fatlaðra einstaklinga í atvinnulífinu og skapa hvatningu fyrir fyrirtæki til að skoða sína starfsemi og sjá hvort það sé ekki tækifæri til að auka margbreytileikann.

Frá því Landsvirkjun hóf að reka sína fyrstu aflstöð hefur það ráðið ungmenni til sumarstarfa við gróður­setningu og sáningu. Eitt af þeim markmiðum sem Landsvirkjun setti sér fyrir árið 2016, á sviði samfélagsábyrgðar, var að sinna betur hlutverki sínu í atvinnusköpun fyrir fötluð ungmenni á aldrinum 16-20 ára. Hafinn er undirbúningur fyrir ráðningar sumarstarfsfólks komandi árs með það að markmiði að störfin höfði til breiðari hóps.

Í upplýsingagjöf fyrirtækja, um frammistöðu sína á sviði samfélagsábyrgðar, felast tækifæri til að fjalla um störf fatlaðs fólks á almennum vinnumarkaði og auka sýnileikann. Hvort sem það er með sérstökum skýrslum fyrirtækja um samfélagsábyrgð, eða á öðrum vettvangi, tel ég að þar geti almenningur og hagsmunasamtök fengið í hendurnar verkfæri til breytinga. Að veita frammistöðu fyrirtækjanna athygli, og skapa aðhald, getur orðið það hreyfiafl sem flytur atvinnulífið á annan og betri stað. Við hljótum öll að vilja sjá fyrirtækin í landinu leitast við að endurspegla þá fjölbreyttu samfélagsgerð sem við búum við.

Í mínum huga liggja í flestum fyrirtækjum vannýtt tækifæri til að skoða starfsemina og með athöfnum auka margbreytileika í röðum starfsmanna. Að ráða einstakling sem annars hefði verið án atvinnu er beggja hagur því vinnustaðurinn verður ríkari. Ríkari af samkennd, skilningi og stolti. Ávinningurinn er allra.

 

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Yfir­lýsing kennara eftir fund með borgar­stjóra

Andrea Sigurjónsdóttir,Eygló Friðriksdóttir,Guðrún Gunnarsdóttir,Jónína Einarsdóttir,Kristín Björnsdóttir,Lilja Margrét Möller,Linda Ósk Sigurðardóttir,Þóranna Rósa Ólafsdóttir skrifar

Skoðun

Vá!

Benedikta Guðrún Svavarsdóttir skrifar

Sjá meira


×